Þau risatíðindi bárust úr körfuboltaheimum á dögunum að Njarðvíkingar hefðu ráðið Daníel Guðna Guðmundsson til að þjálfa meistaraflokk karla á næsta tímabili. Daníel er uppalinn Njarðvíkingur en hann hefur leikið með Grindavík síðan 2012 og síðastliðið haust tók hann við þjálfun meistaraflokks kvenna. Daníel hlaut því eldskírn sína sem þjálfari í efstu deild í vetur en fer nú eins og hann orðaði það sjálfur, úr djúpu lauginni í dýpri laug.
Þrátt fyrir að vera ungur að árum (30 ára) hefur Daníel safnað drjúgt í reynslubankann síðastliðin ár. Veturinn var eflaust lærdómsríkur þar sem Daníel fór með Grindavíkurliðið í úrslit bikarsins og síðan í hörku 5-leikja viðureign við Hauka í úrslitakeppninni. Daníel er menntaður íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með mastersgráðu í Íþróttasálfræði frá Háskólanum Lund í Svíþjóð, svo að hann mætir til leiks hjá Njarðvík með mörg vopn í sínu vopnabúri. Heimasíðan óskar Danna að sjálfsögðu til hamingju með nýja starfið, enda einstakt tækifæri fyrir ungan þjálfara þarna á ferð, að taka við sínum uppeldisfélagi og einu af þeim stærstu í íslenska boltanum. Að sama skapi kveðjum við Danna með söknuði, enda mikill öðlingsdrengur þarna á ferð sem skilaði miklu til félagsins síðastliðin ár.
Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar sendi einnig frá sér yfirlýsingu sem má lesa hér að neðan:
Eins og alkunna er tók Daníel G Guðmundsson við karlaliði Njarðvíkur nú á dögunum. Við hjá KKD Grindavíkur viljum fá að nota tækifærið og óska Njarðvíkingum og Danna að sjálfsögðu til hamingju með þessa ráðstöfun. Við eigum flottar minningar með Danna innan okkar raða og kunnum honum bestu þakkir fyrir tímann sem hann eyddi hjá okkur. Danni reyndist okkur góður liðsmaður og tók svo við kvennaliði okkar fyrir síðasta tímabil og leysti það verk frábærlega af hendi. Það er mikil eftirsjá í Danna en hver veit nema leiðir okkar liggi saman aftur. Við óskum Danna alls hins besta með lið Njarðvíkur og hlökkum til að mæta honum og hans sveinum á næsta tímabili.
Stjórn KKD Grindavíkur.
Karfan.is var einnig með ítarlegt viðtal við Daníel sem má lesa með því að smella hér.
Mynd: vf.is