Grindvíkingar komnir með bakið upp að veggnum fræga

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar eru komnir í erfiða stöðu eftir tap gegn KR í gær en lokatölur leiksins urðu 77-91, þrátt fyrir að Grindvíkingar hefðu lagt allt í sölurnar til að vinna. Það er því ekkert annað í stöðunni en að vinna KR þrisvar í röð og þar af tvisvar í Vesturbænum, en næsti leikur er á miðvikudaginn í DHL-höllinni.

asdsd

Fréttaritari síðunnar var að sjálfsögðu á leiknum og gerði honum rækilega skil í umfjöllun sem birtist fyrst á karfan.is

Vinnusamir Grindvíkingar áttu ekki roð í KR-vélina

Eftir fremur háðulega útreið í DHL-höllinni á fimmtudaginn mættu Grindvíkingar til leiks í kvöld tilbúnir að spila af lífi og sál og gefa allt í leikinn. Það sást greinilega á leik þeirra í fyrsta leikhluta þar sem þeir voru á útopnu um allan völl, fórnuðu sér í alla 50/50 bolta og börðust eins og ljón. En, þeir voru bara ekki að hitta rassgat. Þrátt fyrir að hafa þvingað KR-inga til að tapa 6 boltum í byrjun skoruðu Grindvíkingar aðeins 13 stig í leikhlutanum og settu aðeins 5 skot í 22 tilraunum. Framlagsstigin þeirra voru líka ekki nema 5 meðan KR-ingar voru búnir að gera sexfalt betur með 30 framlagsstig. Eftir fyrsta leikhluta voru Grindvíkingar því að tapa með 6 stigum þrátt fyrir gríðarlega vinnusemi sem hlýtur að hafa pirrað leikmenn Grindavíkur. Þeir lögðu mikla vinnu á sig en uppskáru lítið. Má segja að leikur þeirra hafi endurspeglað hið íslenska hagkerfi, mikil vinna en lítil framlegð.

Í 2. leikhluta var svipað upp á teningnum. KR keyrði muninn upp í 10 stig og hélst hann út leikhlutann. Það lifnaði aðeins yfir Grindvíkingum sóknarlega en þeirra bestu menn gátu ekki keypt sér körfu, hvort sem þeir reyndu við ódýrar í teignum eða rándýrar úr löngum færum. Þeirra bestu menn voru að hitta afar illa, Jón Axel með 2 af 10 og Garcia 3/10 en á meðan mallaði KR vélin bara áfram. KR-ingar voru að hitta mjög vel og fengu líka töluvert af opnum skotum. Flæðið í sóknarleik er ótrúlegt, það finnst nánast alltaf opinn maður á einhverjum tímapunkti, enda voru þeir með 50% skotnýtingu í hálfleik, sem verður að teljast ansi gott. Craion var stigahæstur í hálfleik með 14 stig en Garcia atkvæðamestur hjá Grindavík með 10.

Í seinni hálfleik virtist stefna í algjört þrot hjá Grindvíkingum. Vinnusemin tók sinn toll og KR-ingar gengu á lagið. Munurinn var orðinn 22 stig þegar mest var en Ingvi Þór Guðmundsson lokaði fjórðungnum með þristi úr horninu sem virtist kveikja smá neista hjá heimamönnum. KR-ingar leyfðu sér að leyfa minni spámönnum að spreyta sig í 4. leikhluta en KR-liðið er það vel mannað að þó svo að téðir spámenn séu minni en þeirra bestu leikmenn eru þeir flestir engu að síður risastórir. Grindvíkingar áttu enn eitthvað bensín á tanknum þrátt fyrir að hafa keyrt áfram með pedalann í gólfinu svo til allan leikinn og söxuðu hægt en örugglega á forskot KR sem fór úr 22 stigum í 6. Þorleifur Ólafsson lék líkt og andsetinn og setti hvernig þristinn á fætur öðrum en vendipunktur leiksins kom þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka. KR fór af stað í sókn, 7 stigum yfir og Þorleifur fær dæmda á sig mjög umdeilda villu. Sjálfur vildi hann fá sóknarvillu dæmda á Brynjar og mótmæli harðlega og sennilega réttilega. Útkoman var hins vegar tæknivilla á Jóhann eftir að Ísak Kristinsson hafði átt í störukeppni við hann.

Þar með var vindurinn endanlega úr Grindvíkingum enda skammt til leiksloka. Lokatölur 77-91 og KR með pálmann í höndum, komnir í 2-0 í einvíginu og næsti leikur í Vesturbænum. Grindvíkingar geta gengið stoltir en svekktir frá þessum leik, eftir að hafa lagt allt í sölurnar en samt tapað.

Þorleifur Ólafsson var atkvæðamestur Grindavíkinga í kvöld með 20 stig og næstur kom Chuck Garcia með 19. Grindvíkingar verða sennilega að fá svona eins og 11 stig í viðbót frá honum, sem og fleiri fráköst og varin skot, ef þeir ætla sér að vinna KR. Hjá KR var Craion ótrúlega drjúgur, setti 26 stig og hafði oft lítið fyrir því, kláraði oft úr ótrúlegustu færum eða bara óð í gegn og kláraði málin. Darri kom næstur með 17 og Helgi 16 og þá smellti Pavel í laufléttu þrennu, 10 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar.

Tölfræði leikins

Jón Axel lét þó engan bilbug á sér finna og er sannfærður um að Grindavík taki næstu þrjá leiki: