Góð barátta Grindvíkinga dugði ekki til sigurs í Sýkinu

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar mættu til leiks með skýr markmið á Sauðárkróki í gær enda sæti í úrslitakeppninni nánast að renna þeim úr greipum. Ekki fór leikurinn gæfulega af stað fyrir okkar menn en Chuck Garcia hefur kennt sér meins í lungum undanfarna daga og var í mikilli andnauð inná vellinum. Hann neyddist því til að fá sér sæti á bekknum og kom lítið við sögu í leiknum. Grindvíkingar létu mótlætið þó ekki brjóta sig. Jón Axel og Ómar áttu báðir hörkuleik og drógu vagninn í leik sem var jafn og spennandi þangað til í blálokin þegar heimamenn sigu fram úr, lokatölur 88-79.

Úrslitakeppnin er þó ennþá í spilunum fyrir Grindavík þar sem að Snæfell tapaði einnig sínum leik, en liðin eru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina. Ef að Grindavík vinnur granna sína úr Njarðvík hér í Mustad höllinni á fimmtudaginn og Snæfell tapar sínum leik, endar Grindavík í 8. sæti og í úrslitakeppninni.

Karfan.is fjallaði um leikinn, en myndin sem fylgir þessari frétt er einnig frá þeim:

 

Tindastóll vann mikilvægan sigur gegn Grindavík í síðasta heimaleik sínum fyrir úrslitakeppnina í kvöld. Sigurinn var þó ekki átakalaus enda virtust heimamenn ekki búnir að jafna sig eftir sterkan sigur gegn KR í síðasta leik.

Tindastóll byrjaði leikinn ágætlega eftir að Grindavík hafði skorað fyrstu körfuna og voru komnir í 11-2 eftir góðan þrist frá Viðari eftir tæpar 3 mínútur. Grindavík vann sig þó inn í leikinn fljótlega, bæði með mikilli baráttu og vegna klaufaskapar heimamanna. Fljótlega varð ljóst að Grindavík myndi spila leikinn án síns erlenda leikmanns, Charles Garcia, en hann átti við öndunarörðugleika að stríða og mikinn verk fyrir brjósti og gat nánast ekkert tekið þátt. Í Grindavíkurliðinu er þó að finna marga baráttujaxla og þeir voru ekki komnir í Síkið til að láta valta yfir sig. Það var líkt og mótspyrna þeirra kæmi heimamönnum á óvart því Tindastólsliðið var á köflum eins og byrjendur, ekki voru sett upp kerfi í sóknarleiknum og menn voru hvað eftir annað að klikka á einföldum sniðskotum. Annar fjórðungur var líklega sá slakasti sem undirritaður hefur séð Tindastólsliðið spila í vetur og skoraði liðið einungis 15 stig í leikhlutanum. Sem betur fer fyrir heimamenn voru gestirnir jafnvel slakari og náðu einungis að skora 13 stig og staðan því 38-33 í hálfleik.

Gestir í Síkinu vonuðu að þessi vitleysa sem þeir urðu vitni að í fyrri hálfleik væri nú yfirstaðin og að heimamenn, sem voru klárlega betra liðið, myndi valta yfir gestina í seinni hálfleik. En það var öðru nær, eftir að hafa náð 9 stiga forystu snemma í 3ja fjórðung misstu heimamenn aftur hausinn og þegar tæpar 4 mínútur voru eftir af 3ja fjórðung kom Ómar Örn Grindavík 3 stigum yfir 48-51 og farið að fara um gesti í Síkinu. Tindastólsmenn hertu sig þó aðeins og Gurley og Helgi Freyr sáu til þess að þeir náðu forystunni aftur og staðan var 65-59 fyrir lokafjórðunginn eftir góðan þrist frá Helga.

Sú forysta entist þó ekki lengi og með mikilli baráttu og áframhaldandi klaufaskap heimamanna náðu Grindvíkingar komnir aftur yfir þegar 5 mínútur voru eftir 68-69. Lewis og Dempsey tóku þá á sig rögg og áttu góðan kafla sem hófst með því að Dempsey tók sóknarfrákast eftir misheppnað víti Lewis sem fylgdi því svo eftir með því að skora næstu níu stig heimamanna og skyndilega var staðan orðin 82-74 fyrir Tindastól og einungis 2 mínútur eftir. Pétur Rúnar kom svo muninum í 10 stig þegar mínúta var eftir og átti svo snyrtilega sendingu á Dempsey sem tróð í andlitið á Grindvíkingum og þar með var sigurinn í höfn. Lokastaðan 88-79 í leik sem heimamenn vonandi læra af. Grindvíkingar geta borið höfuðið hátt, Jóhann, Ómar (17 fráköst) og Þorleifur sýndu allir hörkubaráttu og Hilmir Kristjánsson skilaði 13 stigum af bekknum. Bestur gestanna var þó Jón Axel Guðmundsson sem endaði með 20 stig og 9 fráköst.

Hjá heimamönnum voru Lewis og Gurley einna skástir í stigaskoruninni og fyrirliðinn Helgi Rafn leiddi með fordæmi og reif niður 16 fráköst. Reynsla Lewis var dýrmæt á lokasprettinum og hann endaði með 19 stig.

Texti: Hjalti Árnason
Mynd: Lewis var drjúgur í lokin. (Hjalti Árnason)

 

Tölfræði leiksins