Tap gegn Val – baráttan um úrslitakeppnissæti harðnar

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Það var mikið undir þegar Grindavík og Valur mættust í Mustad höllinni í gær en liðin eru í harði baráttu við Keflavík um sæti í úrslitakeppninni í vor. Grindvík byrjaði leikinn betur en 3. leikhluti var eign Valskvenna sem fóru að lokum með sigur af hólmi, 58-63.

Fréttaritari síðunnar var á leiknum og fjallaði um leikinn en þessu umfjöllin birtist fyrst á karfan.is:

Valur hafði betur í baráttunni um 3. sætið

Eftir nokkuð langt landsleikjahlé var eins og allir í Grindavík hefðu gleymt því að það væri ennþá spilaður körfubolti í Mustad höllinni í upphafi leiks. Valsstúlkur virkuðu stirðar og úr takti, áhorfendur gleymdu að mæta til leiks en undirritaður taldi ca 50 hausa í stúkunni og í fyrsta leikhlé leiksins gleymdi DJ-inn meira að segja að það væri leikur í gangi og í staðinn fyrir tónlist heyrðist bara suð úr hátölurum vallarins.

Grindavíkurkonur voru öllu líflegri í byrjun meðan að sóknarleikur Vals minnti meira á myndastyttuleik á köflum. Þær leituðu mikið að Karisma Chapman sem skoraði 7 stig í fjórðungnum og þvinguðu margar sendingar sem Grindvíkingar nýttu sér, en þær stálu 5 boltum í 1. leikhluta og Valskonur voru með 7 tapaða bolta á fyrstu 10 mínútunum. Munurinn á liðunum var þó ekki mikill eftir fyrsta leikhluta, staðan 20-15 heimakonum í vil.

Leikurinn mjakaðist í svipaða átt í 2. leikhluta, þar sem Grindavík var alltaf aðeins á undan og Valur alltaf að elta. Staðan í hálfleik var 35-27, átta stiga munur og Grindavík virtist vera með í pálmann í höndunum. En í miðjum 3. leikhluta fór allt til andskotans hjá Grindavík. Eftir að hafa náð muninum upp í 10 stig, 41-31 var eins og allur vindur væri úr Grindavíkurliðinu. A.m.k. snérist vindáttin og blés öll í seglin hjá gestunum sem söxuðu hratt og örugglega á forskot Grindvíkinga. Á 6 mínútum skoruðu Valskonur 22 stig gegn aðeins 6 stigum Grindavíkur. Í stöðunni 47-45 komu tveir stórir þristar í röð frá Valskonum og allt í einu voru þær komnar yfir og héldu forystunni til leiksloka. Baráttan og leikgleðin var allsráðandi hjá Val á þessum tímapunkti, sem var algjör viðsnúningur frá upphafsmínútunum.

Grindavíkurkonur gerðu svo til allt rangt í lokaleikhlutanum. Þær verða seint sakaðar um að leggja sig ekki fram enda minnkuðu þær muninn í 1 stig rétt fyrir leikslok, en þær voru að stóla mikið á einstaklingsframtak. Þar fyrir utan töpuðu þær 9 boltum í loka fjórðungnum, en voru með 12 tapaða bolta samanlagt í fyrstu þremur fjórðungunum. Flestir af þessum boltum fóru forgörðum þegar þær reyndu alltof erfiðar sendingar eða jafnvel þegar algjör samskiptabrestur varð inni á vellinum.

Sú varð raunin í einni af síðustu sókn Grindavíkur. Sigrún Sjöfn hafði minnkað muninn í eitt stig þegar hún braust í gegnum teiginn og skoraði af miklu harðfylgi, staðan 58-59 og tæp ein og hálf mínúta til leiksloka. Strax í kjölfarið stal Whitney Frazier boltanum hinu megin á vellinum og Grindavík með gullið tækifæri í höndunum til að komast yfir, enda nægur tími til stefnu en sóknin rann út í sandinn eftir misskilning og misheppnaða sendingu útaf. Bergþóra Holton tók sig til í kjölfarið og lokaði leiknum með þristi. Þó svo að enn væru 37 sekúndur til leiksloka virtist trúin á verkefninu vera farin og Valur sigraði því leikinn, 58-63.

Hjá Grindavík var Frazier stigahæst með 17 stig en Sigrún Sjöfn kom næst með 13 stig og jafnmörg fráköst og 5 stolna bolta að auki. Það tók hana að vísu 20 skottilraunir að ná í þessi stig en aðeins 6 þeirra fóru ofan í. Bæði lið voru raunar að hitta frekar illa í kvöld, en Valskonur þó öllu skár og á ögurstundu duttin skotin hjá þeim. Karisma Chapman var lang stigahæst þeirra í kvöld með 27 stig og 13 fráköst. Hún var aðeins einum töpuðum bolta frá vafasamri þrennu, en hún tapaði 9 boltum í kvöld, sem kom þó ekki að sök þegar upp var staðið.

Grindavík-Valur 58-63 (20-15, 15-12, 12-26, 11-10)

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 17/5 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 13/13 fráköst/5 stolnir, Petrúnella Skúladóttir 9, Ingibjörg Jakobsdóttir 7, Ingunn Embla Kristínardóttir 6, Björg Guðrún Einarsdóttir 4, Helga Einarsdóttir 2/5 fráköst, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0, Íris Sverrisdóttir 0, Jeanne Lois Figeroa Sicat 0, Hrund Skúladóttir 0, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0.

Valur: Karisma Chapman 27/13 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 12/7 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 9/5 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 7/8 fráköst, Bergþóra Holton Tómasdóttir 4/5 fráköst, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 2, Regína Ösp Guðmundsdóttir 2/4 fráköst, Helga Þórsdóttir 0, Jónína Þórdís Karlssdóttir 0, Margrét Ósk Einarsdóttir 0, Dagbjört Samúelsdóttir 0.