Það var sannkölluð bikarveisla í Mustad-höllinni í gær. Hún byrjaði 16:30 þegar ríkjandi bikarmeistar kvenna tóku á móti 1. deildarliði Njarðvíkur og unnu þar nokkuð þægilegan sigur, 86-61, þar sem ungir og minna reyndir leikmenn fengu drjúgan spilatíma. Klukkan 19:15 komu svo ríkjandi bikarmeistarar karla, Stjarnan, í heimsókn og er skemmst frá því að segja að Grindvíkingar pökkuðu þeim algjörlega saman og unnu sannfærandi sigur, 82-58.
Fréttaritari Grindavík.is var að sjálfsögðu á staðnum og skrifaði eftirfarandi umfjöllun sem birtist einnig á karfan.is:
Grindavík valtaði yfir bikarmeistarana
Bikarmeistarar Stjörnunnar heimsóttu Grindvíkinga í Mustad-höllina í kvöld í 16-liða úrslitum bikarsins. Liðin mættust í deildinni í Ásgarði fyrr í vetur þar sem Stjarnan vann öruggan 23 stiga sigur. Grindvíkingar höfðu fyrir þennan leik tapað tveimur leikjum í röð í deildinni og sitja í augnablikinu í 9. sæti hennar. Þeir töpuðu illa fyrir Haukum í síðasta leik þar sem þeir skoruðu aðeins 64 stig og áttu heilt yfir frekar dapran dag.
Það var hins vegar allt annað upp á teningnum í kvöld og erfitt að trúa því að þarna væri á ferðinni sama lið og í þeim leik. Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu mínúturnar og Stjörnumenn voru yfir í stöðunni 9-11 eftir 6 mínútna leik. En þá hrukku heimamenn í gírinn og slógu ekki af fyrr en dómararnir flautuðu til leiksloka. Grindvíkingar léku af gríðarlegum krafti og ákefð, þá sérstaklega í öðrum leikhluta, og var hrein unun að fylgjast með þeim.
Leikgleði og barátta einkenndi allar þeirra aðgerðir og þá sérstaklega varnarmegin þar sem Stjörnumenn fengu fá opin skot og voru aðeins með 20% skotnýtingu í hálfleik. Grindvíkingar voru að vísu ekki að hitta neitt sérstaklega vel heldur, en það kom ekki að sök þar sem þeir rifu niður hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og voru með 13 slík í hálfleik. Þeir létu líka þriggjastigaskotunum rigna þó svo að þau væru ekki að detta, 2 af 17 í hálfleik!
Grindvíkingar voru með þægilegt 17 stiga forskot í hálfleik, staðan 41-24. Jón Axel var kominn með 13 stig hjá Grindvíkingum en enginn var búinn að skora meira en 6 stig hjá Stjörnumönnum.Heimamenn slógu ekkert af í seinni hálfleik og munurinn varð fljótlega 20 stig. Stjörnumenn náðu tvisvar að minnka muninn í 15 stig en nær komust þeir ekki. Það var helst þegar Jóhann leyfði ungum leikstjórnendum, þeim Ingva og Hinriki, að leysa Jón Axel af, að Stjörnumenn gerðu sig líklega til að keyra upp hraðann og saxa á forskotið, en sprettirnir voru stuttir og heimamenn héldu sínu striki allan leikinn.Undir lokin voru þjálfarar beggja liða sennilega búnir að átta sig á hvernig leikurinn myndi enda og leyfðu yngri leikmönnum að klára leikinn og fengu nokkrir leikmenn þar verðmætar mínútur í sarpinn.
Lokatölur urðu 82-58. Varnarleikur Grindvíkinga skóp þennan sigur og voru margir leikmenn að skila góðu framlagi, bæði í tölum á blaði sem og í framlagi sem kemur hvergi fram í neinni tölfræði. Jón Axel og Wise voru stigahæstir með 18 stig og þá bætti Jón Axel við 11 fráköstum. Ómar Sævarsson átti líka mjög góða spretti og setti 12 stig og tók 8 fráköst og var að klára sín færi vel.
Hjá Stjörnunni var A’lonzo Coleman með 16 stig og 13 fráköst, en hann átti þó ekki góðan dag og var með verstu +/- tölu allra leikmanna, -24. Justin og Tómas komu svo næstir, með sitthvor 11 stigin.
Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson þjálfara eftir leik: