Einstefna í Mustad höllinni í gær

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurkonur komur endurnærðar til leiks í gær eftir landsleikjahlé í Dominos deild kvenna og unnu stórsigur á botnliði Hamars í gær, 102-48. Leikurinn var algjör einstefna frá fyrstu mínútu og gestirnir sáu aldrei til sólar. Staðan var 28-12 eftir fyrsta leikhluta og 54-25 í hálfleik. Okkar konur slökuðu lítið á í seinni hálfleik og unnu báða leikhlutana og leikinn að lokum með 54 stiga mun.

Meðan flestir leikmenn Grindavíkur fengu frí síðustu daga var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir að spila með landsliðinu og virðist það hafa hjálpað henni að stilla miðið af, en skotnýting hennar framan af vetri hafði verið í daprari kantinum, eða í kringun 25%. Hún átti hins vegar stórleik í gær og hlóð í myndarlega þrennu, með 22 stig, 17 fráköst og 10 stoðsendingar. Það skilaði henni jafnframt 44 framlagsstigum og 51 í +/-. 

Sigrún var þó ekki ein um að eiga stórleik í gær því Whitney Frazier var aðeins 2 stoðsendingum frá þrennunni, með 24 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Allir leikmenn Grindavíkur fengu spilatíma í gær. Hin 15 ára Halla Garðarsdóttir átti flotta innkomu með 10 stig og 8 fráköst.

Flottur sigur hjá okkar konum í gær sem sitja nú í 3. sæti deildarinnar með 5 sigra og 3 töp. Það er stutt í næsta leik en hann er á miðvikudaginn gegn Stjörnunni í Ásgarði.

Tölfræði leiksins

Mynd: Vísir.is