Svekkjandi tap gegn Stjörnunni í Ásgarði í gær

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar heimsóttu Stjörnuna í Ásgarð í Garðabænum í gær og er skemmst frá því að segja að það reyndist engin frægðarför. Grindvíkingar sem voru nýbúnir að venjast því að spila með hinum bandaríska Eric Wise þurftu nú að aðlagast því á ný að spila án hans þar sem hann var í banni í leiknum. Leikurinn byrjaði nokkuð jafn og var staðan 23-22 eftir fyrstu 10 mínúturnar en í 2. leikhluta skelltu heimamenn í lás og unnu hann, 25-8. Eftir það varð ekki aftur snúið. Lokatölur 87-64.

Karfan.is var að sjálfsögðu með fréttaritara á staðnum sem gerði leiknum góð skil sem og að taka myndir og viðtöl:

„Stjarnan tók á móti Grindavík í Ásgarði í kvöld í 5. umferð Domino’s deildar karla. Bæði lið töpuðu leikjum sínum í 4. umferð deildarinnar, Stjarnan á móti ÍR í Breiðholti og Grindavík á móti Snæfell í Grindavík. Því mátti búast við báðum liðum dýrvitlausum til leiks, staðráðnum í að landa sigri í kvöld.

Eric Julian Vise, bandarískur leikmaður Grindavíkur, var fjarri góðu gamni í kvöld vegna leikbanns sem hann hlaut eftir orðaskipti sín við dómara eftir leik Grindavíkur og Snæfells sem fram fór á fimmtudaginn síðastliðinn. Grindvíkingar eru þó ekki óvanir því að spila kanalausir á þessari leiktíð, því fyrrnefndur leikur á móti Snæfelli er eini leikurinn sem Grindvíkingar hafa spilað með erlendan leikmann í deildinni í vetur.

Grindvíkingar byrjuðu betur í kvöld og komust í 0-7, áður en Tómas Heiðar setti niður fyrstu tvö stigin fyrir Stjörnuna. Sóknarleikur Stjörnunnar virkaði stirður til að byrja með og of mikið af erfiðum sendingum og skotum. Hann slípaðist þó fljótlega til og náði Stjarnan 5 stiga forskoti um miðjan leikhlutann í stöðunni 12-8. Jafnt var á með liðunum það sem eftir lifði leikhlutans og leiddi Stjarnan með 1 stigi að honum loknum, 23-22.

Í öðrum leikhluta lokuðu Stjörnumenn leið Grindavíkur að körfunni og settu gestirnir einungis 8 stig í honum á móti 25 stigum heimamanna. Stjarnan hélt því til hálfleiks með verðskuldaða 18 stiga forystu, 48-30. Stigahæstur í liði heimamanna í hálfleik var Justin Shouse með 18 stig og 4 stoðsendingar en hjá Grindavík var Ómar Örn með 8 stig og 7 fráköst.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleik á þriggja stiga skotsýningu frá Tómas Heiðari og Marvin, á meðan lítið var að frétta í sóknarleik gestanna. Þegar skammt var liðið 3. leikhluta tók Jóhann Ólafsson leikhlé í stöðunni 59-34 og las all hressilega yfir sínum mönnum sínum í Grindavík. Í kjölfarið hresstist leikur Grindvíkinga og náðu þeir að minnka muninn niður í 21 stig fyrir lok leikhlutans. Fjórði leikhluti var tíðindalítill, liðin skiptust á að skora og lauk honum með 23 stiga stigri Stjörnunnar, 87-64.“

Stigaskor Stjörnunnar: Justin Shouse 22 stig/6 stoðsendingar, Al’lonzo Coleman 17 stig/15 fráköst/7 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 16 stig/10 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 10 stig, Tómas Þórður Hilmarsson 10 stig/7 fráköst, Ágúst Angantýsson 7 stig, Magnús Bjarki Guðmundsson 5 stig, Tómas Þórir Tómasson 0 stig, Óskar Þór Þorsteinsson 0 stig, Daði Lár Jónsson 0 stig, Kristinn Ólafsson 0 stig, Sæmundur Valdimarsson 0 stig.

Stigaskor Grindavíkur: Ómar Örn Sævarsson 14 stig/14 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 12 stig, Þorleifur Ólafsson 12 stig, Páll Axel Vilbergsson 7 stig/7 fráköst, Hinrik Guðbjartsson 6 stig, Ingvi Þór Guðmundsson 5 stig, Jón Axel Guðmundsson 4 stig, Magnús Már Ellertsson 2 stig, Þorsteinn Finnbogason 2 stig, Jens Valgeir Óskarsson 0 stig/6 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 0 stig, Hilmir Kristjánsson 0 stig.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl við Jóhann og Lalla eftir leik: