Grindavíkurkonur sóttu Akureyri heim á mánudagskvöldið í Lengjubikar kvenna. Akureyringar biðu leiksins með nokkurri eftirvæntingu en þetta var fyrsti heimaleikur liðsins undir stjórn Benedikts Guðmundssonar og þar fyrir utan gegn úrvalsdeildarliði. Það er skemmst frá því að segja að 1. deildarlið Þórs átti ekki möguleika í Grindavík, jafnvel þó svo að Grindvíkingarnir Erna Rún Magnúsdóttir og Helga Hallgrímsdóttir leiki með Þórsurum.
Páll Jóhannsson frá karfan.is var á staðnum og fjallaði um leikinn:
„Leikurinn í gær var Þórsstúlkum erfiður frá upphafi til enda. Þór var einu sinni yfir í leiknum í stöðunni 4-0 en í kjölfarið skoruðu gestirnir 20-0 en Þór átti þó síðustu körfu leikhlutans. Gestirnir leiddu eftir fyrsta leikhluta með fjórtán stigum 6-20. Fátt gekk upp í fyrsta leikhluta og ekki bætti úr skák að Helga Rut var fljótlega komin með þrjár villur og þá fjórðu snemma í öðrum leikhluta. Það munar um minna.
Þórsstúlkur komu betur stemmdar til annars leikhluta og fóru að hitta ögn betur. Leikur gestanna var svipaður og í fyrsta fjórðungi og fór svo að þær unnu annan leikhlutann 14-22. Munurinn á liðunum í hálfleik var 22 stig 20-42.
Í þriðja leikhluta spiluðu gestirnir sterka vörn og pressuðu á Þór og juku muninn jafnt og þétt og þegar upp var staðið munaði 33 stigum á liðunum þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst þá var staðan 33-66.
Svipað var uppi á tengingunum í fjórða leikhlutanum. Úrvaldsdeildarliðið var einfaldlega einu númeri og stórt fyrir Þór og þær juku forskotið jafnt og þétt og höfðu þegar upp var staðið fjörutíu og tveggja stiga sigur 88-46.
Þórsliðið barðist hetjulega í kvöld og þrátt fyrir stórleik Rutar Konráðs sem skoraði 22 stig dugði það skammt. Þá átti Árdís Eva Skaftadóttir fínan leik og hún var með 10 stig. Heiða Hlín Björnsdóttir var með 4 stig, Helga Rut 3 og þær Erna Rún, Hrefna Óttósdóttir, Gyða Valdís tvö sig hver og Linda Marín 1.
Hjá Grindavík var Whitney Frazier stigahæst með 22 stig og hún tók einnig 16 fráköst, Berglind Anna Magnúsdóttir skoraði 17 stig og þar af var hún með 5 þrista, Jeanne Lois Figeroa var með 13 stig, Petrúnella Skúladóttir 11, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 8, Katrín Ösp Rúnarsdóttir 6, Ólöf Rún Óladóttir 5, Helga Einarsdóttir 4 og Angela Björg Steingrímsdóttir 2.“
Mynd og umfjöllun/ Páll Jóhannesson (karfan.is)