Tap gegn Þórsurum í baráttuleik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar tóku á móti Þórsurum núna um helgina í 1. deild karla í knattspyrnu. Eftir slæmt tap gegn Víkingum í síðasta leik var Pepsideildar draumurinn í raun úr sögunni hjá okkur mönnum sem höfðu að litlu að keppa nema heiðrinum. Þórsarar eygðu aftur á móti von um að halda sínum draumum á lífi með sigri í þessum leik og því allar forsendur til staðar að úr yrði hörkuleikur.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa færi á sér og seldu sig bæði dýrt. Fá færi litu dagsins ljós í fyrri hálfleik sem einkenndist af misheppnuðum sendingum og bitlausum sóknartilburðum. Á 54. mínútu komust Þórsarar svo yfir og lengst af leit út fyrir að það yrði eina mark leiksins en á 89. mínútu jafnaði Alejandro Jesus metin fyrir Grindavík. Úr varð nokkur dramatík í lokin en Þórsarar tryggðu sér svo sigurinn með marki í uppbótartíma.

Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið fremur bragðdaufur þá skemmtu þeir sem fylgdust með textalýsingu leiksins á fótbolta.net konunglega en hún var í umsjón grindvíkingsins Magnúsar Bjarna Péturssonar. Hér eru nokkur góð brot:

Grindvíkingar hita upp á léttri innan fótar sendingar æfingu.
Þórsarar eru að halda bolta inní reit.
Dómararnir taka háar hné lyftur.
Lýst vel á upphitunina.

Leikmenn liðanna labba hér inná völlinn og það þýðir að leikurinn er að hefjast.

Áhorfendur eru í kringum 20 manns og nei það er ekki röð við miðasöluna.

Mest spennandi rimman er samt tagla keppnin milli Marínó í Grindavík og Þórð Steinars í Þór.

Marínó er með hefðbundin snúð sem ég hélt að væri dottinn úr tísku en Þórður skartar hógværu litlu tagli en mjög díteilað.

Hlakka til að sjá hvernig þessi rimma fer.

4 leikmenn búnir að renna á rassgatið á á 3 sekúndna kafla, nennir eitthver að þurrka vaselínið af vellinum