U16 ára landslið karla í körfubolta lauk leik á Evrópumótinu um helgina, en mótið var haldið í Búlgaríu. Liðið lék 9 leiki á mótinu, vann fjóra en tapaði fimm, þar á meðal lokaleiknum gegn gestgjöfum Makedóníu. Við Grindvíkingar áttum okkar fulltrúa á mótinu en Nökkvi Már Nökkvason var einn af bestu leikmönnum Íslands á mótinu.
Nökkvi lék alla 9 leiki liðsins og var næst stigahæstur með 13,1 stig að meðaltali í leik og reif niður tæp 4 fráköst í leik. Sú tölfræði sem stendur þó hæst uppúr í leik Nökkva var nýting hans í skotum fyrir utan þriggja stiga línuna, en hún var 40,8%. Ef ekki hefði verið fyrir afleita skotnýtingu í lokaleiknum (1/7 í þristum) hefði hann endað með enn betri nýtingu, en hún stóð í 44,6% fyrir leikinn.
Framtíðin í grindvískum körfubolta virðist vera björt og margir efnilegir leikmenn að koma upp í nokkrum aldursflokkum beggja kynja. Við óskum Nökkva til hamingju með landsliðsverkefnið.