Úrslitakeppni Evrópumóts U17 ára kvenna hefst á Grindavíkurvelli í dag en tveir leikir fara fram í dag. Klukkan 13:00 mætast lið Englands og Spánar en svo klukkan 19:00 hefst formlegur opnunarleikur mótsins þegar lið Íslands tekur á móti Þýsklandi. Frítt er inn á alla leiki á mótinu og vegleg skemmtidagskrá fyrir yngri kynslóðina verður í boði fyrir alla leiki.
Boðið verður upp á knattþrautir, hoppukastala og grillaðar pylsur. Landsliðskonur munu einnig líta við á alla velli, heilsa upp á krakkana, dreifa plakötum af landsliðum Íslands og árita. Einnig verður happdrætti á hverjum leik þar sem miðar á landsleiki með A-landsliðum kvenna og karla verða meðal vinninga. Dregið verður út á meðan leikjum stendur en vinningshafar verða að vera á staðnum til að hljóta vinningana.