Hrakfarir meistaraflokks karla í knattspyrnu halda áfram en í gær tók liðið á móti Þrótti frá Reykjavík. Það viðraði ekkert sérstaklega vel til knattspyrnuiðkunnar í Grindavík í gær en það var engu líkara en haustlægð væri að ganga yfir landið hér í byrjun júní. Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í þessum leik en þrátt fyrir það gekk þeim illa að klára færin.
Þegar stutt var eftir af leiknum leit allt út fyrir að hann myndi enda með markalausu jafntefli. Á 82. mínútu fékk Óli Baldur hins vegar algjört dauðafæri en lét verja frá sér. Skömmu seinna skoruðu Þróttarar svo eina mark leiksins og lokatölur 0-1. Grindvíkingar standa því uppi með aðeins 4 stig eftir 5 leiki og ljóst að boltinn þarf að fara að fara stöngin inn en ekki stöngin út ef fallbaráttan á ekki að vera það sem koma skal í sumar.
Ásgeir Þór Ingólfsson fyrirliði var í viðtali hjá Fótbolta.net eftir leikinn:
„Þetta er gríðarlega svekkjandi,” sagði Ásgeir Þór Ingólfsson fyrirliði Grindavíkur við Fótbolta.net eftir 1-0 tap gegn Þrótti í fyrstu deildinni í kvöld.
„Þetta er sama gamla klisjan. Við erum ekki að koma boltanum í netið og erum að fá hálffæri á okkur sem koma mark úr.”
Grindvíkingar eru einungis með fjögur stig eftir fimm umferðir en liðinu hafði verið spáð í toppbaráttu fyrir mót.
„Þetta er langt undir væntingum og við erum gríðarlega ósáttir með þetta. Við ætluðum ekki að leyfa neinu liði að koma hingað og vinna en við erum búnir að tapa tveimur. Það er nóg eftir af mótinu og við höldum áfram. Þetta er búið að vera stöngin út hjá okkur í sumar.”