Stelpurnar í meistaraflokki kvenna halda áfram að rúlla upp hverjum andstæðingnum á fætur öðrum. Það var ekkert frí hjá þeim um Sjómannadagshelgina en á laugardaginn sóttu þær lið Augnabliks heim í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins og fóru heim með 0-2 sigur í farteskinu. Ekki amalegt að sigla inn í Sjóarann síkáta með bikarsigur á bakinu.
Mörk Grindavíkur skoruðu fyrirliðinn Bentína Frímannsdóttir og markahrókurinn frá Jamaíka Sashana “Pete” Campbell. Stelpurnar eru því komnar í 8-liða úrslit bikarins en þar mæta þær Fylkiskonum en það var engin önnur en Grindvíkingurinn og leikmaður Fylkis, Ólína Viðarsdóttir, sem dró Grindvíkinga uppúr hattinum.
Leikurinn fer fram laugardaginn 4. júlí á Fylkisvellinum í Árbænum. Næsti deildarleikur hjá stelpunum er heimaleikur gegn Fram á miðvikudaginn en strákarnir taka á móti Þrótturum í kvöld í blíðunni.