Bikarsigur á Húsavík í miklum markaleik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar gerðu góða ferð norður fyrir heiðar í gær þegar þeir heimsóttu Völsung á Húsavík í 32-liða úrslitum bikarsins. Húsvíkingar leika í 3. deildinni í ár og fyrirfram bjuggust sennilega flestir við sigri okkar manna. Í fyrri hálfleik benti fátt til annars en að Grindvíkingar myndu landa þægilegum sigri. Eftir 12 mínútna leik var staðan orðin 0-2 og í hálfleik var 0-4 okkar mönnum í vil.

Markaskorarar voru:

0-1 Alejandro Jesus Blzquez Hernandez (‘7)
0-2 Ásgeir Þór Ingólfsson (’12)
0-3 Hákon Ívar Ólafsson (’34)
0-4 Óli Baldur Bjarnason (’41)

Í seinni hálfleik slökuðu Grindvíkingar full hressilega á. Eftir 60 mínútur settu heimamenn mark og áður en yfir lauk voru þeir búnir að setja 3 og minnstu munaði að leikurinn færi í framlengingu. Á 93. mínútu virtist leikmaður Grindvíkinga handleika knöttinn innan teigs og heimtuðu heimamenn vítaspyrnu en ekkert var dæmt og okkar menn sluppu með skrekkinn gegn 3. deildarliðinu.

Tveir leikmenn Grindavíkur hífðu meðalaldurinn í liðinu örlítið upp í kvöld, en Scott Ramsay lék allan leikinn fyrir Grindvíkinga og Óli Stefán síðasta hálftímann. Það er ómetanlegt að eiga svona reynslurefi eins og þá tvo í pokahorninu.

Grindvíkingar eru því komnir áfram í 16-liða úrslit en hverjum þeir mæta í næstu umferð kemur ekki í ljós strax enda nokkrir leikir eftir í þessari umferð. Það verður þó að teljast nokkuð líklegt að andstæðingarnir verði sterkari næst.