Grindvíkingar hafa ekki farið vel af stað í 1. deild karla í knattspyrnu í sumar og hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum, nú síðast gegn Haukum á útivelli. Leikurinn endaði 1-0 fyrir heimamenn en Grindvíkingar brenndu af víti og þá fékk Óli Baldur rautt spjald í kjölfarið á vítinu og léku Grindvíkingar því manni færri það sem eftir lifði leiks.
Okkar menn fengu ófá tækifæri til að skora en inn vildi boltinn ekki. Markvörður Hauka var í kjölfarið valinn maður leiksins á Fótbolta.net. Nokkur meiðsli hafa verið að hrjá Grindvíkinga í upphafi leiktíðar en á bekknum voru bæði Óli Stefán þjálfari og Óskar Pétursson markvörður, sem báðir voru hættir fyrir tímabilið.
Næsti leikur Grindvíkinga er heimaleikur í bikarnum í kvöld þar sem nágrannar okkar úr Vogum koma í heimsókn. Vogamenn eru að skipuleggja sætaferðir á leikinn og hvetjum við Grindvíkinga til að fjölmenna á leikinn og sýna okkar mönnum stuðning í verki.
Áfram Grindavík!
Mynd: Fótbolti.net – Myndasafn