Fótboltasumarið rúllar af stað á laugardaginn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar hefja leik þetta sumarið í 1. deildinni núna á laugardaginn kl. 14:00, þegar lið Fjarðabyggðar kemur í heimsókn. Grindvíkingum gekk ágætlega á undirbúningstímabilinu og þjálfarar og fyrirliðar í deildinni spá liðinu 3. sæti á Fótbolta.net. Það er ljóst að liðið fer inn í tímabilið með nokkrar væntingar á bakinu enda hafa liðs- og stuðningsmenn sennilega ekki mikinn áhuga á að eyða meiri tíma í 1. deild.

Liðið er nokkuð breytt frá síðasta tímabili. Þeir Tommy Nielsen og Óli Stefán Flóventsson tóku við þjálfun liðsins síðasta haust. Óli var í ítarlegu viðtali í Járngerði í mars þar sem hann talaði um að stefnan væri sett á Úrvalsdeild en menn yrðu að vera raunsæir og þolinmóðir:

„Væntingarnar eru töluverðar. Við þjálfararnir erum að byggja upp lið sem við sjáum sem úrvalsdeildarlið til lengri tíma og í framtíðinni viljum við vera topp 6 klúbbur í efstu deild. Við viljum auðvitað komast upp sem fyrst en við gerum það með raunsæi og þolinmæði. 1. deildin er ótrúlega sterk og mörg góð lið um hituna. Að sjálfsögðu á Grindavík alltaf að stefna að því að vera í efstu deild en við erum ekki að tjalda til einnar nætur í sumar.”

Breytingar á leikmannahópnum eru eftirfarandi:

Komnir:
Alejandro Jesus Blzquez Hernandez frá Spáni
Ásgeir Þór Ingólfsson frá Haukum
Maciej Majewski frá Sindra
Rodrigo Gomes Mateo frá Sindra
Úlfar Hrafn Pálsson frá Haukum

Farnir:
Alexander Magnússon í Keflavík
Daníel Leó Grétarsson í Álasund
Einar Karl Ingvarsson í Val (Var á láni)
Jordan Edridge í Selfoss
Juraj Grizelj í KA
Ómar Friðriksson í Víking (Var á láni)
Óskar Pétursson í fríi frá fótbolta

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á völlinn. Óli Stefán talaði um í viðtalinu við Járngerði að hann vildi endurvekja ástríðuna fyrir fótboltanum í Grindavík og félagar í Stinningskalda láta ekki sitt eftir liggja í þeim efnum, en þeir sendu frá sér eftirfarandi tilkynningu á dögunum:

„Jæja Stinningskaldi og aðrir stuðningsmenn. Fótboltasumarið er að hefjast og við viljum starta því almennilega. Við ætlum að grilla ofaní fólk hamborgara á laugardaginn fyrir leik. Byrjum að grilla um 12 leytið en leikurinn við Fjarðabyggð hefst klukkan 14.00 og viljum við helst sjá ykkur gul og blá í stúkunni.

Til að fá hamborgara þarf að framvísa miða á leikinn eða árskorti, það er ekki meira en það. Árskortin eru mjög ódýr og hvetjum við ykkur til að kaupa þau. Við höfum ekki hugmynd um hvaða fjöldi mætir á þetta en við verðum vonandi við öllu búnir í því! Vélsmiðja Grindavíkur ehf ætlar að styrkja knattspyrnudeildina og borgar þessa dýrindis hammara sem við ætlum að grilla ofaní ykkur og sendum við þeim þakkir fyrir það.

Stuðningsmannaklúbburinn Stinningskaldi Grindavík – Okkur vantar fólk sem þarf að vera klárt í að grilla og græja með okkur á laugardeginum. Hverjir eru klárir?

E.S. Það kostar ekkert að vera í stuðningsmannaklúbbnum, gerum bara kröfu um að þið styðjið liðið okkar og mætið helst í gulu eða bláu.

ÁFRAM GRINDAVÍK!!“