Grindavíkurstúlkur sóttu Hólminn heim í gær og voru eflaust fullar bjartsýni eftir sigur í síðasta leik. Framan af var leikurinn í járnum en í 2. leikhluta skelltu Snæfellingar öllu í lás og Grindvíkingar skoruðu aðeins 6 stig í fjórðungnum. Eftir það virtist aðeins vera formsatriði fyrir heimastúlkur að klára leikinn.
Grindvíkingar söknuðu augljóslega Maríu Ben, sem verður ekki meira með á tímabilinu, og þá munaði mikið um að Kristina King fann sig engan veginn í leiknum og skoraði aðeins 6 stig. Næsti leikur er hér í Grindavík á morgun og er í raun hreinn úrslitaleikur fyrir Grindvíkinga því ef hann tapast er liðið komið í sumarfrí.
Símon Hjaltalín fjallaði um leikinn fyrir karfan.is:
„Snæfell tók á móti Grindavík í þriðja leik undanúrslita Dominosdeildar kvenna og var staðan jöfn í einvíginu 1-1 eftir heimasigra hjá liðunum. Staðan var 8-6 um miðbik fyrsta hluta og voru liðin að hamast í sóknum sínum og puða of mikið með oft lítinn árangur fyrir vikið. Snæfell lagði sitt mikið undir Kristen McCarthy sem hafði skorað öll átta stigin en varnarleikur beggja liða þéttur með tilheyrandi lágu skori og lítilli hittni. Staðan var jöfn 12-12 eftir fyrsta fjórðunginn.
Slök hittni hélt áfram í upphaf annars hluta og Snæfell náði að setja niður 4 stig á fyrstu tveimur mínútunum en Petrúnellu leiddist þófið og smellti einum þrist til málaleggingar og staðan 16-15 eftir stirðar upphafsmínútur. Snæfell stálu þá nokkrum boltum og bættu í með miklum látum og komust í 24-15. Snæfell uppskar 21-6 í öðrum hluta og gjörsamlega yfirtóku leikinn líkt og Grindavík hafði gert í þriðja hluta í síðasta leik. Grindavíkurstúlkur koðnuðu niður við mótlætið og þurftu að þola forystu Snæfells í hálfleik 33-18.
Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy komin með 17 stig og 7 fráköst og Gunnhildur fylgdi henni með 6 stig sem hún setti niður í þremur góðum hraðaupphlaupum í öðrum hluta. Í liði gestana gulu var Petrúnella Skúladóttir ekki allskostar hætt að berjast og var komin með 10 stig en Grindavík var að skjóta 29% gegn 45% Snæfells í tvistum.
Snæfell hóf seinni hálfleik á að rjúfa 20 stiga forystuna og með þrist frá Gunnhildi komust þær í 38-18. Pirringur komst í herbúðir Grindavíkur sem komust lítt áfram og uppskáru tæknivillu fyrir að segja eitthvað í ósætti sínu. Það sem helst var á þær hallað var að Snæfellsstúlkur hentu sér í alla bolta, létu svo boltann ganga vel og spiluðu hraðar sóknir sem gestirnir réðu ekki við. Staðan eftir þriðja fjórðung 59-31 fyrir Snæfell sem bættu örugglega við forystuna.
Það virkaði eins og um einungis formsatriðið eitt væri að klára fjórða hlutann en yfirgangur heimaliðsins í öðrum og þriðja hluta gaf það til kynna. Færri mínútu leikmönnum var skipt inn á í báðum liðum og fengu allar að spreyta sig. Snæfellsstúlkur héldu forystunni og var staðan 68-41 þegar tvær og hálf mínúta var til leiksloka. Snæfell sigldi sigrinum öruggum í höfn 69-48 tóku 2-1 forystu og eygja von um að klára einvígið í Grindavík á fimmtudaginn næsta ellegar verður oddaleikur.“
Snæfell: Kristen Denise McCarthy 28/8 fráköst/8 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 10/5 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9, María Björnsdóttir 7, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 6/4 fráköst/3 varin skot, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, Alda Leif Jónsdóttir 2, Berglind Gunnarsdóttir 2/8 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2, Anna Soffía Lárusdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.
Grindavík: Guðlaug Björt Júlíusdóttir 18/8 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 14, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 6, Jeanne Lois Figeroa Sicat 3/4 fráköst, Kristina King 3/5 fráköst, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 2/5 fráköst, Halla Emilía Garðarsdóttir 2, Ingibjörg Jakobsdóttir 0, Hrund Skuladóttir 0, Pálína María Gunnlaugsdóttir 0/5 fráköst, Berglind Anna Magnúsdóttir 0.
Viðtal við Atla Geir eftir leik: