Grindavík jafnaði einvígið gegn Snæfelli, 1-1

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurstúlkur tóku á mæti Snæfelli á laugardaginn í öðrum leik liðanna í 4-liða úrslitum Dominosdeildar kvenna. Eftir sárt tap í fyrsta leik komu okkar stúlkur sterkar til baka í þessum leik og unnu að lokum góðan sigur, 79-72. Snæfellingar voru sterkari framan af en í seinni hálfleik skelltu Grindvíkingar í lás í vörninni, lokuðu vel á Kanann hjá Snæfelli og kláruðu leikinn með stæl.

Í seinni hálfleik skiptu Grindvíkingar í svæðisvörn og náðu að halda Kristen McCarthy í 9 stigum en hún hafði sett 27 í fyrri hálfleik. Þá munaði miklu um framlag Pálínu en hún setti 7 þrista í leiknum og skoraði alls 31 stig og var valin Lykil-maður leiksins.

Karfan.is var að sjálfsögðu með öflugan blaðamann á staðnum sem fjallaði um leikinn og tók myndir:

„Grindavík sigraði Íslands og deildarmeistara Snæfells fyrr í kvöld á heimavelli sínum, Röstinni, í öðrum leik fjórðungsúrslitaseríu liðanna í Dominos deild kvenna, með 79 stigum gegn 72. Grindavík því búið að jafna einvígið, 1-1. Næsti leikur liðanna fer fram á heimavelli Snæfells, í Stykkishólmi, þriðjudaginn 14. komandi kl 19:15.

Fyrri hálfleikur leiksins var að miklu, ef ekki öllu leyti, eign gestana úr Stykkishólmi. Þar sem að fyrir þeim fór hin knáa Kristen McCarthy, en hún ku hafa sett ein 27 stig og tekið 7 fráköst í þessum fyrri hálfleik. Fyrsti leikhlutinn var þó jafn, endaði í 2 stiga forystu Snæfells, 19-21. Sá annar hinsvegar, kunnulegri fyrir þessa Íslands og deildarmeistara, endaði í 9 stiga forystu gesta, 33-42. Áðurnefnd Kristen McCarthy (27/7) var atkvæðamest Snæfells, en fyrir heimamenn í Grindavík var það Kristina King sem dróg vagninn með 15 stigum og 2 fráköstum.

Eftir hlé, því lítið þess til fyrirstöðu að Snæfell, eins og þær höfðu svo oft gert gegn Grindavík í vetur, myndu klára leikinn frekar auðvelt. Heimastúlkur í Grindavík mættu hinsvegar aftur frá búningsherbergjum með allt, allt annað hugarfar. Þær skiptu vörn sinni upp frá maður á mann yfir í svæðisvörn, sem aftraði næstum öllu því sem Snæfell reyndi að gera sóknarlega. Því fór sem fór, að heimastúlkur, náðu, ekki bara að gera þetta að leik aftur, heldur náðu þær að fara með heil 6 stig í forystu inn í lokaleikhlutann (unnu 3. leikhluta 22-7).

Sá fjórði, og síðasti, var svo að miklu leyti spennandi fyrir hlutlausta augað. Virkilega agaður og skemmtilegur körfubolti spilaður þar. Einhvernveginn þó, var biðin eftir því að Snæfell tækjust á loft (eins og meistaraliði sæmir) lengri en leikklukkan. Grindavík, með dyggu framlagi Lykilleikmanns leikssins Pálínu Gunnlaugsdóttur (7/12 í þristum í kvöld) sóknarlega og varnarframlagi þeirra Petrúnellu Skúladóttur og Ingibjargar Jakobsdóttur (sem héldu McCarthy í 11 stigum í seinni hálfleiknum), héldu leikinn út og náðu að lokum að sigra leikinn með 7 stigum, 79-72.

Lykilmaður þessa leiks var án vafa, leikmaður Grindavíkur, Pálína Gunnlaugsdóttir, en hún skoraði 31 stig, tók 8 fráköst og stal 4 boltum á þeim rúmu 32 mínútum sem hún spilaði í kvöld.“

Myndasafn

Tölfræði

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur – karfan.is

Grindavík-Snæfell 79-72 (19-21, 14-21, 22-7, 24-23)

Grindavík: Pálína María Gunnlaugsdóttir 31/8 fráköst, Kristina King 30/13 fráköst/5 stolnir/5 varin skot, Petrúnella Skúladóttir 11/5 fráköst, Jeanne Lois Figeroa Sicat 3, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 2/6 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 2, Elsa Katrín Eiríksdóttir 0, Berglind Anna Magnúsdóttir 0, Katrín Ösp Rúnarsdóttir 0, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 0, Ingibjörg Jakobsdóttir 0/6 fráköst/7 stoðsendingar, Hrund Skuladóttir 0.

Snæfell: Kristen Denise McCarthy 36/14 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 13/8 fráköst/8 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8, Rebekka Rán Karlsdóttir 6, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 6, Alda Leif Jónsdóttir 3, María Björnsdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0/8 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 0, Anna Soffía Lárusdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.

Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Davíð Tómas Tómasson

Viðureign: 1-1

Viðtöl við Sverri og Atla:

Pálína eftir leik:

Nokkur myndbrot úr leiknum: