Sverrir Þór hættir hjá Grindavík eftir tímabilið

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Það er skammt stórra högga á milli hjá körfuboltanum en í gær greindum við frá því að Ólafur Ólafsson væri á leið í atvinnumennsku í Frakklandi og síðdegis í gær bárust svo þær fréttir að Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari beggja meistaraflokka UMFG í körfubolta, hafi ákveðið að hætta eftir tímabilið. 

Sverrir hefur þjálfað meistaraflokk karla undanfarin þrjú ár og í ár þjálfaði hann bæði karla og kvennaliðið. Undir hans stjórn landaði karlaliðið bæði Íslandsmeistara- og bikarmeistaratitli, og konurnar urðu bikarmeistarar í ár og eru að spila í úrslitakeppninni þegar þetta er skrifað. Við hér á Grindavík.is þökkum Sverri fyrir vel unnin störf hjá Grindavík og óskum honum góðs gengis í hverju sem hann mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

Karfan.is tók Sverri í létt spjall:

“Þetta er bara komið gott í bili en það er alveg á tandur hreinu að á næsta tímabili ætla ég mér að vera í algeru fríi. Engar æfingar sem leikmaður eða þjálfari og er það líkast til í fyrsta skipti bara hreinlega síðan ég man eftir mér. Ég lagði skóna á hilluna 35 ára og hef verið við þjálfun síðan þá og var fyrir það bæði í körfuboltanum og svo fótboltanum.” sagði Sverrir sem virtist bara mjög ánægður með þessa ákvörðun.

“Það er fyrst og fremst þakklæti sem kemur uppí hugann til Grindvíkinga og þess tíma sem ég eyddi hjá þeim. Þetta er alger topp klúbbur og í raun draumastaður til að þjálfa á. Öflugt fólk að vinna bakvið tjöldin og svo er liðið í fínum málum. Ég er ánægður með að hafa skilið eitthvað eftir mig þar en fyrst og fremst er það þakklæti fyrir það tækifæri sem ég fékk hjá þeim.” sagði Sverrir Þór í snörpu viðtali við Karfan.is