Grindvíkingar snemma í sumarfrí í ár

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Keppnistímabil Grindvíkinga í Dominosdeild karla hlaut fremur snautlegan og ótímabæran endi þetta árið, en KR-ingar voru með kústana á lofti og sópuðu okkar mönnum útúr úrslitakeppninni, 3-0. Grátlegur endir á erfiðu tímabili sem er markað af miklum meiðslum og mannabreytingum, bæði á erlendum leikmönnum og íslenskum.

Fyrir tímabilið voru menn hóflega bjartsýnir. Ákveðið var að fá erlendan leikstjórnanda til liðsins enda Jón Axel farinn til Bandaríkjanna í nám og Lalli hóf tímabilið meiddur. Brendon Roberson hét kauði en hann náði aldrei að spila deildarleik með liðinu. Eftir að hafa spilað í Ljósanæturmótinu og Lengjubikarnum var ljóst að Brendon stóð engan veginn undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans og var hann sendur heim með næstu vél um miðjan september.

Í samtali við karfan.is sagði Gauti Dagbjartsson, formaður: „Við lofum einu, næsti leikmaður verður ógeðslega góður þar til hann kemur, við getum ábyrgst það,“ sagði Gauti léttur í lundu. Á síðustu leiktíð var nokkuð klafs á þeim gulu við að festa sér Bandaríkjamann og höfðu nokkrir gárungar það á orði að Grindvíkingar væru einn öflugasti styrktar- og samstarfsaðili Icelandair. Gauti áréttaði þó að Grindvíkingar kepptust við að sýna ráðdeild í rekstri.“ – Því miður reyndist Gauti ekki sannspár í þetta skiptið!

Næstur í röðinni var hinn leiftursnöggi Joel Hayden Haywood. Joel lék í dönsku deildinni síðasta vetur og gerði  þar gott mót og var t.a.m. stigahæstur í deildinni. Hann náði þó aðeins að leika fjóra leiki með Grindavík, þar sem að hann sýndi að hann bjó vissulega yfir miklum hraða en gekk oft og tíðum illa að finna netið og var í raun meiri skorari heldur en sendingarmaður. Ekki leikmaðurinn sem Grindavík vantaði og þarna var líka komin upp önnur óvænt og erfið staða. Korteri áður en mótið hófst fékk Sigurður Þorsteinsson, einn besti miðherji deildarinnar undanfarin ár, símtal frá Svíþjóð og tilboð um að gerast leikmaður Solna Vikings. Siggi skildi augljóslega eftir sig nokkuð stórt gat og vænkaðist staða Joel Haywood ekki við þessar breytingar. Hann var því látinn fara eftir fjóra leiki og Grindvíkingar þurftu að kaupa nýjan miða í Kanalottóinu.

Eftir þetta var ákveðið að skipta um gír og næstur í röðinni var miðherjinn Rodney Alexander. Grindvíkingar höfðu einhvern grun um að hverju þeir gengu þar en Rodney hafði áður leikið á Íslandi með ÍR. Það var ljóst í fyrsta leik að þarna væri á ferðinni öflugur leikmaður en einnig ljóst að hann væri ekki í sínu besta formi. Gauti hefur eflaust skrifað jólasveininum og aðeins sett eina ósk á jólagjafalistann: Að Rodney myndi ekki detta of hressilega í jólasteikina í fríinu.

Skemmst er frá því að segja að formanninum varð að ósk sinni. Rodney varð betri með hverjum leiknum sem leið og virtist vera kominn í hörkuform, troðandi yfir mann og annan, skorandi að meðaltali 24 stig og rífandi niður 12 fráköst í leik. Eftir að liðið hafði byrjað tímabilið 2-6 fór smám saman að rætast úr þessu. Í leik á móti Tindastól fyrir jól var óvænt mættur til leiks Jón Axel Guðmundsson sem staddur var á landinu í námsleyfi og fór sá orðrómur að kvissast út að hann myndi snúa alfarið til baka eftir áramót. Sá orðrómur reyndist sannur og snéri hann aftur sem og að Magnús Gunnarsson lauk sinni keppni fyrir Grindavík og fór í Skallagrím.

Eftir þessa erfiðuðu byrjun fór smám saman að rofa til og sigrar að tínast inn. Grindvíkingar sýndu það og sönnuðu að þeir áttu í fullu tré við öll lið í deildinni en þjálfari KR hafði það einmitt á orði að þetta Grindavíkurlið væri sennilega besta lið sem hefði endað í 8. sæti í deildinni. Öll þessi meiðsli gerðui það líka að verkum að ungir leikmenn liðsins fengu tækifæri til að stíga upp og nýttu það vel. Hinn 18 ára Hilmir Kristjánsson (97) lék nokkra leiki í byrjunarliðinu og lét þristum rigna, Hinrik Guðbjartsson (96) lék mikilvægar mínútur í stöðu leikstjórnanda og Oddur Kristjánsson (95) stimplaði sig rækilega inn sem öflug skytta og leikstjórnandi. Ómetanleg reynsla fyrir þessa ungu leikmenn sem munu búa vel að henni næsta tímabil.

Grindvíkingar léku bróðurpartinn af tímabili án þeirra Jóhann og Þorleifs Ólafssona (þó ekki bræðranna) og þá voru ýmis minni meiðsli að hrjá marga leikmenn. Það kom í raun varla sá leikur allt tímabilið þar sem hægt var að stilla upp fullmönnuðu liði. Jóhann kom þó til baka fyrr en menn höfðu vonað og Lalli var kominn af stað rétt fyrir úrslitakeppnina. Hvernig þetta tímabil hefði farið með fullskipað lið í flestum leikjum og Rodney í liðinu frá upphafi er ómögulegt að segja en menn hljóta að vera ansi ósáttir við að enda tímabilið á þessum nótum, eftir að hafa barist með kjafti og klóm fyrir sætinu í úrslitakeppninni.

En það kemur dagur eftir þennan dag og tímabil eftir þennan. Við erum reynslunni ríkari eftir þetta tímabil og vonandi allir búnir að ná sér af meiðslum sínum. Svo verður bara að líta á björtu hliðarnar, það er a.m.k. komið sumarfrí!