Grindvíkingar heimsóttu KR í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni Dominosdeildarinnar 2015. Lokatölur urðu 71-65 í leik sem þótti ekki sérlega áferðarfallegur. Okkar menn voru að hitta afleitlega og mesta furða hvað þeir náðu að halda í við KR-inga. Gott áhlaup í loka leikhlutanum kom okkar mönnum í góðan séns í lokin en KR-ingar voru sterkari á lokasprettinum og gerðu útum leikinn.
Það er ljóst að Grindvíkingar eiga í fullu tré við KR-ingana og ekki ólíklegt að serían fari í fimm spennandi leiki. Það munar mikið um hafa endurheimt Þorleif Ólafsson úr meiðslum en að sama skapi saknar liðið bróður hans Ólafs og vonandi að hann ná sér af lungnabólgunni sem fyrst!
Næsti leikur er í Grindavík á sunnudaginn og þá er ekkert annað en sigur í spilunum. Karfan.is fjallaði um leikinn:
„Hátíðarbragur var yfir Vesturbænum í kvöld og góður stemmari. Vorlykt í bland við ilm af grilluðum eðal KR-borgurum í lofti. Svarthvítar fjölskyldur gengu saman hönd í hönd í átt að DHL-höllinni með þann tilgang í huga að eiga nú saman góða kvöldstund sem og sjá kóngana í KR opna úrslitakeppnina með stæl. Heiðgulir Gríndvíkingar voru einnig þar mættir, glaðir og reifir líkt og þeirra síkáti sjóari, með fulla trú á sínum mönnum. Framundan var viðureign deildarmeistara KR sem unnu alla sína leiki nema tvo og Grindvíkinga sem hrepptu 8 sætið með 50% vinningshlutfall. Liðin sem að kepptu til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. Stóra pósta vantaði í bæði lið, Ólaf Ólafs hjá Grindavík sem var bakk heima vegna lungnabólgu og svo Pavel hjá KR þó svo hann væri í hóp var gott sem vitað að hann væri ekki að fara að beita sér neitt í þessum leik þar sem hafði verið frá vegna meiðsla sem hann hlaut í bikarúrslitaleiknum.
Byrjunarlið KR var Brynjar, Craion, Björn,Helgi og Darri en fyrir Grindvíkinga Jóhann, Rodney, Ómar, Jón Axel og Oddur. Craion byrjar leikinn með látum fyrir KR-inga, tekur uppkastið, skorar og blokkar svo Rodney í næstu sókn. Jón Axel svarar sálfræðilega sterkt með því að taka “Pálma Frey” á þetta, þ.e. nota afturenda KR-ings sem batta í innkasti, gefa stoðsendingu á sjálfan sig og skora, virkilega nett hjá stráknum. Sem sagt leikurinn byrjar með látum og skiptast liðin á að skora. Brynjar Þór ákveðinn í vörn og sókn og kominn með 10 stig eftir 6 mínútur. Leikurinn hraður og skemmtilegur á að horfa á þessum tíma og staðan 9:7 eftir 4 mínútna leik. Þá nær KR góðum kafla, boltinn gengur vel á milli manna á meðan Grindvíkingar eru að hitta illa úr sínum skotum þó færin séu ágæt. Gaman að segja frá því að stórskyttan Finnur Atli neglir þrist á þessum tímapunkti og átti góða innkomu. Staðan 20:13 eftir fyrsta leikhluta
KR byrjar 2.leikhluta af krafti þar sem Helgi og Brynjar setja sitt hvorn þristinn og breyta stöðunni í 26:13. Aukin ákefð og harka færist í leikinn og finnst báðum liðum á sig halla í dómgæslunni, sem ekki er óalgengt. Þá ber hæst og öllum að óvörum að Pavel er skipt inn á og fagnar stúkan mjög. Mikill hraði og fast spilað þá stundina. Grindvíkingar langt frá því að vera markvissir í sínum sóknarleik með ítrekuð þriggja stiga skot sem ekki eru að ganga og greinilega orðnir pirraðir. Nýtingin hjá Grindavík 0/9 í þriggja þegar 1 mínúta er til loka hálfleiks og geta þeir þakkað hiksti í sóknarmaskínu heimamanna fyrir að vera ekki meira en 12 stigum undir í hálfleik 38:26. Pavel virtist riðla dálítið skipulaginu við innkomu sína sem er kannski ekkert óeðlilegt þar sem KR hefur þurft að aðlagast brotthvarfi hans. Smá lífsmark með Grindavík í lokin, 5 stig í röð. 38:26
Brynjar að spila vel 16 stig og 3 fráköst. Craion 8 stig 6 fráköst Finnur með 8stig og 4 fráköst á 11mín. Rodney Alexander stigahæstur hjá Grindavík með 8stig og 7 fráköst. Nýtingin hræðileg hjá Grindavík 37% í tveggja 10% í þriggja.
Seinni hálfleikur byrjar ekki vel fyrir gestina þar sem Jón Axel fær sína 4.villu og er kippt út af samstundis, enda allur seinni hálfleikur eftir. KR að spila ágætlega þá stundina, staðan 47:28 og 3 mín liðnar af seinni hálfleik. Grindavík er þarna að spila frekar andlausa og ómerkilega vörn og KR virðist vera að gera út um leikinn. Þorleifur reynir að rífa sína menn áfram með öskrum og ágætu einstaklingsframtaki en leikhlutinn líður undir lok og staðan 55:40 fyrir lokaleikhlutann.
Miðað við hvernig leikurinn var að spilast, þ.e. Grindavík var komið í villuvandræði og leikur þeirra afspyrnuslakur þá bjuggust fæstir við einhverju áhlaupi eða endurkomu af þeirra hálfu. Raunin var hins vegar sú að þeir gulu komu grimmir til leiks í lokabaráttuna og voru búnir að minnka þetta niður í 9 stig 57-48 og ennþá 7 mínútur eftir af leiknum. Áfram börðust þeir gulu og spiluðu bara hina þokkalegustu vörn sem skilaði þeim í stöðuna 59:54 og Craion kominn út af með 5 villur. Allt í einu var glataður leikur af hálfu Grindvíkinga í baksýnisspeglinum og sigur innan seilingar enda mómentið með þeim gulu. Enn söxuðu Grindvíkingar á þá svarthvítu og náðu þeir þessu minnst niður í tveggja stiga mun 59:57 þegar 3:30 voru eftir. Þá ákvað reynsluboltinn og leiðtoginn Helgi Magnússon að nóg væri komið af slíku hjá gestunum, hingað og ekki lengra. Kappinn setti 6 stig í röð og sigldi sínum mönnum burt frá Grindvíkingum og sigrinum í höfn 71:65.
Leikurinn ekki áferðarfallegur eða skemmtilegur á að horfa á löngum köflum og eiginlega bara dálítið undarlegur. Lélegur sóknarleikur hjá báðum liðum þó svo Grindavík hafi þar vinninginn í lélegheitum enda afspyrnu slæleg nýting. Staðan 1-0 fyrir KR. Verðskuldaður sigur KR-inga í undarlegum leik en hrós til Grindvíkinga að gefast ekki upp og berjast allt til loka.
Bestu menn KR voru Brynjar Þór (19stig) sem var ákveðinn í vörn og sókn og Helgi Magnússon (17stig) sem sýndi leiðtogahæfileika á lokakaflanum og kláraði leikinn fyrir sína menn. Hjá Grindavík er erfitt að taka einhvern út. Rodney var stigahæstur með 24 stig en ekki að spila sérstaklega vel og á að geta betur.“