Grindavíkingar heimsóttu Sauðárkrók í gær þar sem spútniklið Dominosdeildar karla, Tindastóll, tók á móti þeim. Fyrir þennan leik höfðu Stólarnir ekki tapað leik á heimavelli í deildinni í vetur og sátu í 2. sæti deildarinnar. Liðin höfðu mæst tvisvar áður í vetur og Stólarnir farið með sigur af hólmi í bæði skiptin. Fyrir leikinn var því ljóst að okkar menn þyrftu að taka á honum stóra sínum til að eiga möguleika í þessum leik.
Grindvíkingar fóru betur af stað en leikurinn var jafn framan af. Í seinni hálfleik tóku okkar menn þó afgerandi forystu og héldu Skagfirðingum um það bil 15 stigum frá sér eða svo það sem eftir lifði leiks. Glæsilegur og dýrmætur sigur niðurstaðan og nú situr Grindavík í 6. sæti, aðeins einum sigri frá 3. sætinu. Nú eru aðeins þrír leikir eftir í deildinni, gegn Keflavík, Fjölni og Snæfelli, og ef þeir leikir vinnast og úrslit í öðrum leikjum verða okkur hagstæð gæti 3. sætið orðið okkar í lok tímabils.
Karfan.is fjallaði um leikinn:
„Hörkuleik Tindastóls og Grindavíkur í Síkinu í kvöld lauk með nokkuð öruggum sigri gestanna 84-94. Þar með mátti Tindastóll fella sig við sitt fyrsta deildartap í Síkinu á leiktíðinni og í raun fyrsta deildartap síðan 17. mars 2013 en það var einmitt líka gegn Grindavík!
Fyrsti fjórðungur var hraður, harður og skemmtilegur. Grindavík hafði frumkvæðið allan leikhlutann, voru grimmari á boltann og leiddu með 3 stigum 22-25. Heimamenn vöknuðu aðeins til lífsins í öðrum leikhluta, fóru að berjast meira og náðu forystunni 30-27. Þá var eins og botninn dytti úr leik Tindastóls og gestirnir fóru að hitta fyrir utan. Á 7 mínútna kafla náði Grindavík 19-4 áhlaupi og skildu heimamenn eftir í rykinu, allt í einu var staðan orðin 34-46 og Grindvíkingar leiddu í hálfleik 39-48. Andleysi einkenndi leik heimamanna og skotin voru alls ekki að detta, sama hvað reynt var.
Heimamenn hófu seinni hálfleik töluvert betur og voru búnir að minnka muninn í 4 stig eftir rúmar 5 mínútur 48-52. Þá gáfu gestirnir bara aftur í og sigu lengra fram úr og 2 þristar frá Jóni Axel og Oddi Rúnari komu þeim í 15 stiga forystu þegar um 2 mínútur voru eftir af þriðja fjórðung 49-64. Rodney Alexander bætti við 4 stigum úr vítum áður en Flake og Pétur löguðu stöðuna aðeins fyrir lokafjórðunginn. Það dugði þó skammt því Grindvíkingar héldu heimamönnum einfaldlega nokkuð þægilega frá sér í fjórða leikhluta og virtust alltaf eiga svar við mini-áhlaupum Tindastóls.
Grindavíkurliðið virkaði allan tímann meira tilbúið í þennan leik en heimamenn. Stemmningin í liðinu var góð og liðið er ógnarsterkt líkamlega. Tindastólsmenn virkuðu þungir í vörninni og skotin voru ekki að detta. Dempsey og Lewis leiddu vagninn í stigaskorun en aðrir voru langt frá sínu besta og það munar um minna.
Sverrir Þór var ánægður með sína menn eftir leik og taldi þá hafa unnið vel fyrir sigrinum. Staða þeirra væri einfaldlega sú að þeir þyrftu að berjast fyrir öllum stigum sem í boði væru til enda mótsins til að styrkja stöðu sína í deildinni. Hans menn vissu að ekki yrði auðvelt að sækja stig norður á erfiðasta heimavöll deildarinnar en þeir hafi verið tilbúnir í baráttuna og það hafi skilað sigri. Sverrir taldi þó sína menn hafa getað frákastað betur og eiga aðeins inni í þeirri tölfræði.“