Næstum því bikaralslemma í Höllinni um helgina

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Það voru ekki bara meistaraflokkskonur sem léku til bikarúrslita um helgina því 9. flokkur kvenna komst einnig í úrslit sem og 11. flokkur karla. Stelpurnar í 9. flokki unnu glæsilegan sigur á Keflavík eftir framlengdan leik en strákarnir í 11. flokki þurftu að sætta sig við silfur eftir tap gegn firnasterku liði KR. Tveir titlar af þremur er ansi góður árangur og óskum við þessum flottu leikmönnum Grindavíkur öllum til hamingju með árangurinn.

Karfan.is fjallaði um leikinn hjá 9. flokki. Við birtum hér niðurlag umfjöllunarinnar:

„Grindvíkingar þurftu í lokasókn sinni á þriggja stiga körfu að halda og þá er gott að hafa keypt neyðarkall eins og Hrund. Hún tók jafnvel erfitt þriggja stiga skot og hefði mögulega átt að senda boltann frekar en viti menn! Hann söng í körfunni og Grindavík búið að jafna 45-45 þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum. Lokasókn Keflavíkur fuðraði út í sandinn og því þurfti að framlengja í stöðunni 45-45.

Keflvíkingar voru fyrri til að skora í framlengingunni en þar var Eydís Eva að verki, 47-45, afbragðs frammistaða hjá Eydísi í dag. En Grindavík lét deigan ekki síga, neyðarkallinn Hrund var sem fyrr hárbeitt og kom Grindavík í 50-53 úr erfiðu færi. Keflvíkingar stóðust ekki prófið á lokasprettinum og Grindavík sigldi í land 50-57 sigri og fögnuðurinn var ósvikinn í leikslok hjá gulum.“

Fyrirfram var vitað að sameiginlegt lið Grindavíkur og Þórs myndi eiga við ramman reip að draga á móti KR. Framan af benti ekkert til annars en að KR myndi hreinlega rúlla leiknum upp en okkar strákar gáfust ekki upp og komu sterkir til baka í loka leikhlutanum en þeir Ingvi Þór Guðmundsson og Nökkvi Már Nökkvason leiddu áhlaup okkar manna. Það dugði þó ekki til og lokatölur urðu 84-77.

Karfan.is fjallaði að sjálfsögðu líka um þennan leik:

„Í síðari hálfleik voru lengi vel engin teikn á lofti um að Grindavík/Þór ætti hina minnstu von í leiknum. KR vann þriðja leikhluta 22-18 og leiddu 64-42 fyrir fjórða og síðasta hluta. Þægindin og rólegheit lögðust yfir raðir röndóttra.

Með hverri mínútunni sem leið í fjórða leikhluta fór röndóttum að fatast flugið, léku fjarri þeirri festu sem þeir höfðu sýnt af sér fyrstu þrjá hlutana. Grindavík/Þór þáði þetta heimboð og fór að saxa niður forystuna með Ingva Þór og Nökkva í broddi fylkingar og áður en leið á löngu hafði Ingvi landað sinni eigin þrennu, 25 stig, 15 fráköst og 10 stoðsendingar. Mögnuð endurkoma hjá Grindavík/Þór en holan varð of djúp og KR hélt forystunni uns lokaflautið gall en voru minntir á það rækilega að það þýðir ekkert að gera hlutina vel í hálftíma því leikurinn er jú fullar 40 mínútur.“