Njarðvíkingar straujaðir í Röstinni

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Njarðvíkurstúlkur mættu í Röstina í gær til þess að leika um sæti í úrslitaleiknum í bikarnum sem fer fram í Laugardalshöll 21. febrúar næstkomandi. Fyrirfram reiknuðu sennilega flestir með að heimastúlkur yrðu sterkari aðilinn í leiknum enda leika Njarðvíkingar í 1. deild en eins og allir vita getur allt gerst í bikarleikjum og ljóst að Njarðvíkingar yrðu sýnd veiði en ekki gefin. En svo hófst leikurinn.

Fyrir leik bárust þær fréttir að hinn erlendi leikmaður Njarðvíkinga, Nikitta Gartrel, yrði ekki með í leiknum sökum óléttu og mikillar ógleði. Mikil blóðtaka þar fyrir Njarðvíkinga og Grindvíkingar gengu á lagið og beittu sinni vel skipulögðu og kæfandi pressuvörn frá fyrstu mínútu. Er skemmst frá því að segja að Njarðvíkingar skoruðu aðeins 2 stig í leikhlutanum sem endaði 24-2! Grindavíkurstúlkur slökuðu lítið á í 2. leikhluta og staðan í hálfleik 46-12 og úrslitin í raun ráðin. 

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur ákvað því að gefa reynsluminni leikmönnum færi á að ná sér í mínútur og breyttist þessi undanúrslitaleikur í raun í laufléttan æfingaleik fyrir Grindavík, sem verður að teljast nokkuð óvænt. Allir leikmenn Grindavíkur fengu að spreyta sig í gær. Enginn byrjunarliðsleikmaður lék yfir 20 mínútur og hin bandaríska Kristina King lék aðeins rúmar 13 mínútur og verður því væntanlega vel úthvíld ásamt öðrum lykilleikmönnum fyrir næsta leik.

Stig Grindavíkur: Petrúnella Skúladóttir 16, María Ben Erlingsdóttir 12/5 fráköst/3 varin skot, Jeanne Lois Figeroa Sicat 9, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 9/15 fráköst, Katrín Ösp Rúnarsdóttir 7, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 6/4 fráköst, Berglind Anna Magnúsdóttir 6, Pálína Gunnlaugsdóttir 5/7 fráköst, Hrund Skuladóttir 5, Kristina King 4, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 2/6 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 0/5 stoðsendingar.

Það verða því Grindavík og Keflavík sem mætast í bikarúrslitunum þann 21. febrúar.