11 grindvískir sigrar í röð

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkingar unnu góðan sigur á Stjörnunni í gær í Dominosdeild karla og hafa grindvísku liðin nú unnið samanlagt 11 leiki í röð í deildum og bikar. Umtalsverð batamerki hafa sést á leik liðsins í síðustu leikjum. Að endurheimta Jón Axel hefur reynst Grindvíkingum happadrjúgt og þá er Jóhann Árni að finna sitt gamla form á ný en hann virkaði ferskur í leiknum í gær og setti 15 stig.

Karfan.is fjallaði um leikinn í gær:

Stjörnuhrap í Grindavík

„Grindavík sigraði Stjörnuna í 14. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í Röstinni, með 104 stigum gegn 92. Grindvíkingar því komnir í 5. sæti deildarinnar með 14 stig og þá aðeins einum sigurleik fyrir aftan Stjörnuna, sem situr í því 3.

Leikurinn fór fjörlega af stað. Þar sem að heimamenn komust fljótlega í naumt 8 stiga forskot, sem Stjarnan var þó fljót að skera niður og endaði fyrsti leikhlutinn með 2 stiga forskoti heimamanna í 25-23, en í honum höfðu bæði leikmaður Stjörnunnar, Dagur Kár Jónsson, sem og leikmaður Grindavíkur, Rodney Alexander náð að setja 10 stig hvor.

Annar leikhlutinn fór svipað af stað og sá fyrsti, nema að þá var það Stjarnan sem tók af skarið og náði sér í nokkurra stiga forskot sem að Grindavík var svo aftur fljótt að skera niður og snúa sér í vil. Staðan var 54-49, heimamönnum í vil þegar haldið var til búningsherbergja eftir fyrri hálfleik.

Í þriðja leikhlutanum hélt leikurinn svo áfram í svipuðum gír, þar sem liðin skiptust á að setja niður nokkur stig í röð hvort rétt áður en að hitt svaraði. Fyrir lokaleikhlutan var staðan því 72-69 og allt stefndi í allsvakalegan lokaleikhluta.

Fljótlega í þeim fjórða mátti þó sjá að Grindavík virtist eilítið meira tilbúið í að vinna þennan leik en Stjarnan. Þar sem að bæði var sóknarleikur þeirra skipulagðari, menn þeirra spiluðu betri vörn sem og tóku þeir ógrynni af sóknarfráköstum í leikhlutanum. Því fór sem fór að Grindavík fór með sigur af hólmi með 104 stigum gegn 92 í, að mestu leyti, spennandi og skemmtilegum körfuboltaleik.

Maður leiksins var leikmaður Grindavíkur, Jón Axel Guðmundsson, sem skilaði hæstu framlagi (36) allra leikmanna á vellinum, en hann skoraði 22 stig, gaf 12 stoðsendingar, tók 5 fráköst og stal 4 boltum á þeim 36 mínútum sem hann spilaði í leiknum.“

Tölfræði

Myndasafn