Ray Jónsson til liðs við meistarana á Filipseyjum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Knattspyrna

Fótbolti.net greindi frá því í morgun að Grindvíkingurinn Ray Anthony Jónsson væri um það bil að semja við ríkjandi Filipseyjameistara í knattspyrnu. Hann hefur undanfarið æft með þeim og allar líkur á að hann geri 6 mánaða samning við félagið. Ray sem lék um árabil með Grindavík á að baki 31 leik með landsliði Filipseyja.

Frétt fótbolta.net:

„Ray Anthony Jónsson hefur undanfarna daga æft með Global FC í Filippseyjum og allar líkur eru á að hann geri sex mánaða samning við félagið á næstu dögum.

Global hefur orðið meistari í Filippseyjum undanfarin tvö ár en liðið mun þar af leiðandi taka þátt í AFC Cup eða Asíukeppni félagsliða í sumar.

,,Þetta kom til bara fyrir stuttu,” sagði Ray í samtali við Fótbolta.net í kvöld.

,,Eigandi klúbbsins hafði samband um hvort ég væri til að koma hingað og prófa í nokkra mánuði fyrst ég væri orðinn samningslaus. Ég var reyndar búinn að lofa honum að prófa spila hérna úti einhvertímann fyrir nokkrum árum síðan.”

Árið 2010 byrjaði Ray að spila með landsliði Filippseyja en móðir hans er þaðan. Ray á 31 landsleik að baki en hann hefur ekkert getað spilað með landsliðinu í eitt ár vegna meiðsla. Ray útilokar ekki endurkomu í landsliðið.

,,Kannski er ennþá smá von um að spila með landsliðinu en fyrst þarf maður að komast í leikform, standa sig og vera heill,” sagði Ray.

Hinn 35 ára gamli Ray hefur leikið með Keflavík undanfarin tvö ár en hann var áður á mála hjá Grindavík í áraraðir.“