Grindvíkingar lokuðu árinu með tveimur sigrum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Eftir ansi brösulega byrjun á tímabilinu hjá meistaraflokki karla í Dominosdeildinni tókst strákunum að enda árið á jákvæðum nótum og geta vonandi haldið áfram á sömu braut á nýju ári. Síðasti leikur ársins var í gærkvöldi þegar Snæfell kom í heimsókn og fóru okkar menn með sigur af hólmi að lokum, 98-87.

Fréttaritari síðunnar fjallaði um leikinn fyrir karfan.is og birtist eftirfarandi pistill þar í gærkvöldi:

„Grindvíkingar tóku á móti Snæfellingum í Röstinni í kvöld í bráðfjörugum leik. Grindvíkingar tóku forystuna strax í byrjun og létu hana aldrei af hendi þó svo að Snæfellingar hefðu oft gert sig líklega. Lokatölur 98-87 í Röstinni.

Grindvíkingar hafa eins og kunnugt er verið að glíma við umtalsverð meiðsli og mannabreytingar í vetur en enduðu árið á tveimur góðum sigrum sem þeir stefna vafalaust á að byggja ofan á á nýju ári. Leikstjórnandinn Oddur Rúnar Kristjánsson var í borgaralegum klæðnaði í kvöld en hann verður frá næstu 4-6 vikur. Jóhann Árni var hins vegar mættur í búning á ný en á þó enn langt í land að verða 100%.

Í byrjunarliði Grindavíkur í kvöld voru því afar ungir bakverðir. Í stöðu leikstjórnanda var hinn 18 ára Hinrik Guðbjartsson og komst hann mjög vel frá leiknum. Hann keyrði oft upp hraðann og var hvergi banginn að kljást við eldri og umtalsvert stærri leikmenn. Í stöðu skotbakvarðar var svo hinn 17 ára Hilmir Kristjánsson sem hefur verið að koma sterkur inn í lið Grindavíkur í síðustu leikjum. Þar virðist vera á ferðinni efnileg þriggja stiga skytta, en hann hitti úr 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum í kvöld.

Grindvíkingar héldu svo uppteknum hætti í meiðslum í kvöld en Magnús Gunnarsson snéri sig illa á ökkla og þurfti að yfirgefa völlinn og þá fékk Þorsteinn Finnbogason putta í augað sem orskaði það að linsa í auganu fór langleiðina upp í heila.

Eftir fyrsta leikhluta var staðan 24-21 en þá settu heimamenn í fluggírinn og settu 18 fyrstu stig leikhlutans og breyttu stöðunni í 42-21. Snæfellingar rönkuðu þó aðeins við sér og löguðu stöðuna í 53-43 fyrir hálfleik. Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu til að hrista gestina af sér sem voru aldrei langt undan. Í seinni hálfleik var munurinn minnstur 4 stig en lengra komust Snæfellingar ekki en Grindvíkingar voru mun sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum 11 stiga sigur.

Bæði lið voru að hitta mjög vel fyrir utan, Grindavík með 14 þrista (52%) og Snæfell með 15 (57%). Austin Bracey átti 7 (í 11 tilraunum!) af þessum 15 þristum og var það í raun hann sem hélt Snæfellingum inní leiknum. Það voru nefnilega aðeins 6 leikmenn Snæfells sem skoruðu í kvöld og þangað til á síðustu mínútunum voru aðeins 5 leikmenn komnir á blað. Á meðan skoruðu allir leikmenn Grindavíkur, sem á annað borð spiluðu, stig.

Maður leiksins, að öðrum ólöstuðum, var Rodney Alexander, hinn bandaríski leikmaður Grindavíkur. Kappinn skoraði 27 stig og tók 16 fráköst, en hann er illviðráðanlegur í teignum enda mikill (en lipur) skrokkur. Þar fyrir utan spilaði hann mjög góða vörn þá sérstaklega á Christopher Woods. Það hefur verið mikill stígandi í leik Rodney og vonandi fyrir Grindvíkinga kemur hann ferskur til baka úr jólafríinu og tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið í ár.

Sigur Grindvíkinga var þó fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar. Allir sem komu inná voru tilbúnir að leggja sig fram, boltinn rúllaði vel í sókinni og vörnin hreyfanleg, en Ólafur Ólafsson stal 4 boltum í leiknum. Dýptin í Grindavíkurliðinu er greinilega töluverð og ungir leikmenn eru að safna drjúgt í reynslubankann í þessari meiðslahrinu. Fyrir Snæfellinga hlýtur það aftur á móti að vera áhyggjuefni hversu fáir leikmenn eru að skora stigin.“