Grindavíkurstúlkur unnu góðan sigur á Val í síðasta leik fyrir jólafrí í gærkvöldi, 71-77 og skutu sér í kjölfarið í 4. sæti deildarinnar. Valsstúlkur léku án síns erlenda leikmanns en það virtist lítið há þeim og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit í leiknum.
Rachel Tecca lét óvenju lítið fyrir sér fara í þessum leik, en skilaði þó tvöfaldri tvennu, 13 stigum og 11 fráköstum. Það var hins vegar Pálína Gunnlaugsdóttir sem steig upp í hennar fjarveru og sýndi loksins sitt rétta andlit í vetur. Hún skoraði 22 stig og bætti við 10 fráköstum. Þá skoraði Petrúnella 15 og María Ben 13.
Stelpurnar eru því komnar í jólafrí og enduðu árið á mjög jákvæðum nótum. Tveir góðir sigrar gegn toppliðum í deildinni og 4. sætið tryggt a.m.k. fram yfir áramót. Næsti leikur á nýju ári er útileikur gegn Hamri, en strákarnir spila lokaleik ársins í kvöld, heima á móti Snæfelli.
Áfram Grindavík!