Það er öllu bjartara yfir gengi kvennaliðs Grindavíkur í meistaraflokki en karlaliðinu þessa dagana. Þær eru komnar áfram í bikarnum í 8-liða úrslit eftir góðan sigur gegn Hamri í Hveragerði á laugardaginn en sigur gegn einu af 4 toppliðum deildarinnar lætur þó enn bíða eftir sér.
Leikurinn gegn Hamri endaði 74-88, og var það að sögn góð byrjun sem skóp þennan sigur. Grindvíkingar léku grimma pressuvörn og rúlluðu á mörgum leikmönnum en eins og svo oft áður í vetur var það Rachel Tecca sem var stigahæst með 27 stig og 11 fráköst.
Okkur konur heimsóttu svo Hafnarfjörðinn aðeins tveimur dögum seinna í leik sem hafði áður verið frestað vegna veðurs. Fyrir leikinn sátu Grindavíkurstúlkur í 5. sæti í deildinni, en aðeins 4 efstu sætin tryggja sæti í úrslitakeppninni. Þegar rýnt er í leikina á bakvið stigatöfluna kemur í ljós að Grindvík hefur enn ekki tekist að landa sigri gegn neinum af liðunum í sætum 1-4. Þær komust þó býsna nálægt því í þessum leik sem var spennandi allt til enda og minnstu munaði að Grindvík færi með sigur af hólmi. Tecca skoraði 8 stig í röð og minnkaði muninni í 68-67 þegar ein mínúta var til leiksloka. En hlutirnir féllu ekki með Grindvíkingum í þetta skiptið og lokatölur 73-67 fyrir Hauka. Sjá umfjöllun á karfan.is.
Það verður samt að segjast að það virðist vera góður stígandi í liði Grindavíkur og ef fram heldur sem horfir hljóta sigrar gegn toppliðunum að fara að detta í hús og vonandi sæti í úrslitakeppninni áður en tímabilið er á enda.