Fastir liðir eins og venjulega, hrun í þriðja leikhluta og stærsta tap í sögu Grindavíkur staðreynd

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Það var vængbrotið Grindavíkurlið sem sótti KR heim í gærkvöldi. Þeir Þorleifur Ólafsson, Jóhann Árni Ólafsson og Daníel Guðni Guðmundsson eru allir meiddir og þá er liðið einnig án erlends leikmanns í augnablikinu, sem að vísu horfir allt til betri vegar. Í upphafi leiks var ekki að sjá að þessi skakkaföll hefðu mikil áhrif á Grindavík sem áttu í fullu tré við KR-inga. En svo kom hálfleikur.

Þriðja leikinn í röð varð algert hrun í þriðja leikhluta hjá Grindvíkingum og KR-ingar fljótlega komnir 30 stigum yfir og leikurinn í raun búinn þó svo að nóg væri eftir á klukkunni. Sverrir leyfði ungum leikmönnum að spreyta sig sem máttu síns lítils gegn sterku liði KR sem sló lítið af þó svo að öruggur sigur væri fyrir löngu í höfn. Stórmannlegt af þeim, eða hitt þó heldur.

Lokaniðurstaðan varð stærsta tap Grindvíkur í sögu úrvalsdeildarinnar, 118-73, eða 45 stiga munur. Hér að neðan má lesa umfjöllun karfan.is um leikinn:

Íslandsmeistarar KR tóku á móti bikarmeisturum Grindavíkur í DHL Höllinni í kvöld. Sprækur en óagaður fyrri hálfleikur hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar meistarar KR settu upp sitt rétta andlit. Úr varð stærsta tap Grindavíkur í deildarkeppni úrvalsdeildar í sögu félagsins! Lokatölur 118-73 þar sem Pavel Ermolinskij skrásetti fyrstu þrennu tímabilsins í Domino´s deild karla.

KR-ingar gefa engin grið þegar Suðurnesjaliðin eru annars vegar þetta tímabilið. Skelltu Njarðvík í fyrsta leik með 14 stiga mun, Keflavík var næsta fórnarlamb þeirra með 23 stiga mun og Grindavík steinlá í kvöld gegn röndóttum með 45 stiga mun!

Vitaskuld var á brattann að sækja, bikarmeistarar Grindavíkur mættu í DHL Höllina án Bandaríkjamanns og með þá Þorleif , Jóhann Árna og Daníel Guðna í meiðslum. Gestirnir mættu með svæðisvörn til leiks en klárir karlar í KR leystu vel úr henni og leiddu 32-26 eftir fyrsta leikhluta þar sem Darri Hilmarsson var beittur með 12 stig.

Þorsteinn Finnbogason splæsti í tvo góða þrista fyrir Grindavík í öðrum leikhluta, annar meira að segja í spjaldið og ofaní, ókallað. Næsti maður á svið var Finnur Atli Magnússon með létta rispu og m.a. hraðaupphlaupstroðslu. Hlutirnir gerðust hratt, ákvarðarnir voru slæmar og leikur í gangi sem er fáum þjálfurum að skapi. Meistarar KR leiddu engu að síður 53-44 í hálfleik og flestir að furða sig á því af hverju munurinn væri ekki meiri.

Gestir í DHL Höllinni fengu strax svör við ofangreindri spurningu sinni í upphafi síðari hálfleiks. KR opnaði þriðja hluta 10-0 og í þeirri syrpu var m.a. stórglæsileg „hollý hú” troðsla sem Craion hamraði niður. Þetta var rétt forsmekkurinn af rassskellingunni sem Grindavík átti eftir að fá. Pavel Ermolinskij datt í fyrstu þrennu tímabilsins eftir 25 mínútna leik og KR vann þriðja hluta 36-12. Það var ekki að sjá að hér væru að mætast ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar. Staðan 91-56 og dæmið búið.

Fjórði leikhluti gat einna helst af sér brottrekstrarvillu hjá Magnúsi Þór Gunnarssyni og nokkuð víst að hann muni taka út leikbann fyrir brot sitt á Brynjari Þór Björnssyni. Lokatölur 118-73 eins og áður segir og svartasti dagur Grindavíkur í deildarkeppninni mættur í sögubækurnar þeirra.

Tveir leikmenn KR hoppuðu yfir 40 framlagsstigin, Pavel með 18 stig, 13 fráköst og 17 stoðsendingar og 45 í framlag og Craion með 27 stig og 18 fráköst og 43 í framlag. Hjá Grindavík var Oddur Rúnar Kristjánsson með 15 stig en ljóstýra Grindavíkur eru sú að þetta getur vart versnað úr þessu.

Myndasafn