Stórt tap gegn Keflavík í gær

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindavíkurstúlkur heimsóttu Keflavík og fyrirfram var búist við hörkuleik, enda báðum liðum spáð góðu gengi en þó sérstaklega Keflvíkingum og öllum var það sennilega ljóst að Grindvíkingar yrðu að hafa sig allar við til að eiga möguleika á sigri í þessum leik. Rétt fyrir leik kom svo í ljós að Rachel Tecca gæti ekki spilað með og héldu Grindavíkurkonur því til leiks án síns erlenda og jafnframt besta leikmanns.

Það er skemmst frá því að segja að Grindavíkurstúlkur sáu aldrei til sólar í leiknum. Það var engu líkara en þær hefðu enga trú á verkefninu og virtust ekki mæta tilbúnar til leiks. Fyrsti leikhluti endaði 35-11 og gaf tóninn fyrir það sem á eftir fylgdi, lokatölur urðu 106-57, heimastúlkum í vil.

Eitt af því sem stóð uppúr í lok leiks var áberandi slök nýting Grindavíkur fyrir utan þriggja stiga línuna, en þær hittu alls úr 2 skotum í 22 tilraunum, sem gerir 9% nýtingu. Heilt yfir hafa þær hitt 15% fyrir utan í vetur sem er langsamlega lélegasta nýtingin af öllum liðum deildarinnar, en meðaltalið í deildinni er 25,78%.

Við birtum hér umfjöllun karfan.is um leikinn, en myndin er einnig frá þeirri frábæru síðu:

Keflvíkingar tóku á móti Grindavík í 6. umferð Domino’s deildar kvenna í körfubolta fyrr í kvöld. Fyrir leikinn var Keflavík á toppi deildarinnar ásamt Haukum og Snæfell, en öll höfðu liðin unnið fjóra leiki hvort en tapað einum. Grindavík var ásamt Val með þrjá sigurleiki og tvo tapleiki í 4.-5. sæti.

Leikurinn endaði með 106 gegn 57 stiga sigri heimastúlkna og eru Keflavík þá ennþá í efsta sæti deildarinnar, ásamt Haukum og Snæfell (sem unnu leiki sína einnig í kvöld), sem og, eru Grindavík ennþá jafnar Vali (sem töpuðu einnig sínum leik) að stigum í 4.-5. sæti deildarinnar.

Viðureign kvöldsins var aldrei spennandi. Keflavíkurstúlkur voru bæði mun skipulagðari, sem og sýndu þær af sér allan þann vilja sem þær mögulega (að manni fannst) gætu hafa sýnt til þess að gera út um leikinn sem fyrst og með sem mestum mun strax í fyrsta leikhluta.

Sérstaklega fór fyrir baráttu þeirra Marínar Davíðsdóttur og Söndru Þrastardóttur í þeim leikhlutanum, en að fordæmi þeirra virtist allt Keflavíkurliðið fylgja. Fyrsti leikhlutinn endaði 35-11 fyrir Keflavík og má segja að hann hafi sett tóninn fyrir restina af leiknum.

Grindavík átti hreinlega engin svör, voru að láta hlutina fara í taugarnar á sér og heilt yfir, voru þær langt frá því að gefa þessari annars áhugaverðu viðureign nokkurt færi á að verða að keppni.

Nokkuð virtist muna um að stjörnuleikmaður Grindavíkur, Rachel Tecca, var fjarri góðu gamni í leik kvöldsins, en hún hefur að meðaltali verið að skila þeim 22 stigum, 14 fráköstum og 4 stolnum boltum á tímabilinu.

Hjá Keflavík var Carmen Tyson atkvæðamest með 29 stig og 18 fráköst. Á hæla hennar fylgdu þær Sara Rún Hinriksdóttir með 13 stig og 14 fráköst og Hallveig Jónsdóttir með 11 stig og 7 fráköst.

Hjá Grindavík var Petrúnella Skúladóttir með 14 stig og Ingibjörg Jakobsdóttir með 5 stig og 7 stoðsendingar.

Punktar:

Keflavík tóku 65 fráköst á móti 27 hjá Grindavík.
Af þeim voru 26 sóknarfráköst tekin af Keflavík á móti aðeins 9 hjá Grindavík.
Grindavík var 2/22 úr þriggja stiga skotum.
Allir leikmenn nema 1 úr hvoru liði komst á blað h/v stigaskorun.

Myndasafn