Það var sannkallaður naglbítur í Röstinni í gærkvöldi þegar heimamenn tóku á móti Þór Þorlákshöfn. Gestirnir unnu góðan sigur í síðustu umferð á Keflavík meðan heimamenn steinlágu í Garðabænum í leik sem þeir vilja sennilega gleyma sem fyrst.
Sverrir Þór gerði töluverðar breytingar á sínu liði fyrir þennan leik. Grindvíkingar eru enn að stilla saman strengi og aðlaga leikstíl sinn að brotthvarfi Sigga Þorsteins og nýjum erlendum leikmanni. Jóhann Árni var ekki í búning í kvöld, er að glíma við smávægileg meiðsli, og þá byrjaði Maggi Gunn leikinn á tréverkinu. Í staðinn komu tveir ungir leikmenn inn í byrjunarliðið. Annars vegar Oddur Rúnar Kristjánsson, fæddur 1995 og hins vegar Hilmir Kristjánsson, fæddur 1997. Stigu þeir báðir vel upp og skiluðu sínu hlutverki vel.
Grindvíkingar fóru mun betur af stað og skoruðu nánast að vild. Gott flæði var í leik þeirra og margir leikmenn að skora. Í hálfleik voru 5 leikmenn þeirra í kringum 10 stigin en Þórsar fengu lítið framlag frá öðrum leikmönnum en þeim Nemanja Sovic, sem lét þristum rigna í kvöld, og Tómasi Heiðari Tómassyni. Hinn bandaríski Vincent Sanford hafði varla sést í fyrri hálfleik og munaði Þórsurum mikið um hans framlag, en hann átti heldur betur eftir að spýta í lófana í seinni hálfleik.
Þegar liðið gengu til búningsherbergja var staðan 57-44, heimamönnum í vil, og allt útlit fyrir þægilegan sigur þeirra. En líkt og í leiknum á móti Stjörnunni gekk allt á afturfótunum í þriðja leikhluta hjá Grindvíkingum. Sanford opnaði fjórðunginn á þrist og Þórsarar tóku 6-17 áhlaup í kjölfarið. Grindvíkingar réðu illa við Sanford sem skoraði grimmt sem og Sovic. Heimamönnum tókst þó að halda haus og fyrir síðasta leikhlutann var staðan 71-67, en stemmingin var öll Þórsmegin, bæði á vellinum og í stúkunni.
Þórsarar byrjuðu leikhlutann með miklum látum og voru fljótlega komnir yfir. Liðin skiptust á að skora og þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir setti Sanford stóran þrist og kom Þórsurum í 81-85. En þetta voru síðustu stig hans og Þórsara í leiknum og með mikilli seiglu tókst Grindvíkingum að komast aftur inn í leikinn. Í stöðunni 84-85 tók Joel Haywood rosalegt „shake and bake” move og setti risastóran þrist úr horninu með Sanford í smettinu. Þórsurum tókst ekki að skora aftur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og lokatölur urðu 90-85.
Hjá gestunum voru Sovic og Tómas Tómasson atkvæðamestir, með 26 og 20 stig, en Vincent Sanford kom næstur með 13 stig og 12 fráköst, en skotnýting hans var afar slök.
Hjá heimamönnum voru þeir Ólafur Ólafsson og Ómar Örn Sævarsson gríðarlega öflugir. Þeir rifu í sig sitthvor 14 fráköst og skoruðu 18 og 19 stig. Ómar er greinilega enn að venjast nýju og stærra hlutverki í sóknarleiknum en Joel Haywood var duglegur að finna hann undir körfunni og endaði með 9 stoðsendingar. Haywood hefur sýnt það að þarna er á ferðinni gríðarlega snöggur og flinkur leikmaður en hann hefur ekki alveg náð að finna taktinn sóknarlega. Hann var t.a.m. með 20 stig í kvöld en aðeins 33% skotnýtingu. Stóra spurningin er hvort að Grindvíkingar hafi þolinmæði til að leyfa honum að finna taktinn eða hvort þeir freisti gæfunnar á ný í Kanalottóinu.
Ólafur Ólafsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins í kvöld. Hann steig vel upp í lok leiksins, sótti ákveðið að körfunni trekk í trekk og tók gríðarlega mörg fráköst og varði skot, þar á meðal eitt rétt fyrir lok leiksins. Hann endaði með 18 stig, 14 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 varin skot. Þá var hann einnig með flest framlagsstig heimamanna, eða 29.
Þessi pistill birtist áður á karfan.is
Viðtal við mann leiksins, Ólaf Ólafsson