Karlalið Grindavíkur tekur á móti Þór úr Þorlákshöfn í Dominosdeild karla í kvöld. Gengi liðsins framan af móti hefur verið upp og ofan, enda enn verið að slípa til ný leikkerfi og áherslur eftir skyndilegt brotthvarf Sigurðar Þorsteinssonar nokkrum dögum fyrir móti. Í Morgunblaðinu birtist á dögunum viðtal við Sigurð, sem nú leikur með Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni.
Við endurbirtum hér vefútgáfu viðtalsins:
„„Það er ekki búist við neinu af þessu liði, enda er það ungt, en ég held að við náum ofar en margir búast við. Við erum enn að mótast,” sagði Sigurður G. Þorsteinsson, Ísafjarðartröllið, sem fetar nú sín fyrstu skref í atvinnumennsku með liði Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik.
Sigurður kom til liðsins rétt áður en leiktíðin hófst og tók strax við stóru hlutverki. Í fyrstu fimm umferðunum hefur hann spilað næstmest allra leikmanna liðsins og að meðaltali skorað 9 stig og tekið 6 fráköst í leik.
„Þeir höfðu áhuga á mér í sumar en ég fékk svo að heyra það í júlí að þeir hefðu ekki átt pening fyrir mér. Það urðu svo einhverjar breytingar á hópnum skömmu fyrir mót og þá áttu þeir nægan pening og höfðu samband. Það var hringt í mig á þriðjudegi og ég farinn út á föstudegi. Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað til að gera og þá stekkur maður til þegar tækifærið gefst,” sagði Sigurður. Hann segir viðbrigðin frá því að spila með Grindavík í Dominos-deildinni, og að spila nú í Svíþjóð, vitaskuld nokkur.
„Það eru fleiri æfingar með liðinu, þetta er nánast það eina sem maður gerir yfir daginn. Viðbrigðin í deildinni felast í því að það eru fleiri góðir leikmenn í hverju liði, varamannabekkirnir „dýpri” og þvíumlíkt, og menn almennt stærri og sterkari. Það er ekkert himinn og haf á milli deildarinnar hér og heima, en þetta eru viðbrigði. Hérna gætu hæglega fleiri leikmenn úr deildinni heima spilað, en ekki margir úr hverju liði,” sagði Sigurður, sem virðist ætla að pluma sig vel hjá Víkingunum.”