Grindvíkingurinn Páll Axel Vilbergsson varð á dögunum fyrsti leikmaðurinn í sögu íslensku úrvalsdeildarinnar í körfubolta til að skora yfir 1.000 þriggja stiga körfur á ferlinum. Páll Axel, sem er 36 ára, leikur í dag með Skallagrími í Borgarnesi en bróðurpartinn af þessum körfum skoraði Palli í Grindavíkurbúning.
Vísir.is greindi frá því að Palli hefði nú alls leikið 109 leiki þar sem hann hefði sett 4 þrista eða fleiri í leik á ferlinum. Í samtali við Valtý Björn, íþróttafréttmann hjá Stöð 2 sagði Palli að hann pældi lítið í þessu meti og væri ekki í boltanum með það að markmiði að elta einhver met. Hann þekkti einfaldlega ekkert annað en að spila körfubolta og hefði ennþá mjög gaman af og væri því sennilega hvergi nærri hættur. Páll Axel mun því örugglega halda áfram að bæta metið í vetur og jafnvel næstu árin. Næsti maður á listanum er Guðjón Skúlason svo að það er lítil hætta á að metið falli í bráð.
„Þetta met er löngu farið en þetta kemur með tímanum. Við erum fyrst og fremst að einbeita okkur að því að ná í sigur. Það skiptir öllu máli. Ég á eftir að spila svo mörg tímabil í viðbót að 1000 körfu múrinn hrynur einn daginn,” sagði Páll Axel en metið gæti fallið annað kvöld þegar Skallagrímur fær Snæfell í heimsókn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
„Ég myndi segja að það væri aumkunarvert að halda áfram í körfu og stefna að því að bæta einhver stigamet, leikjamet eða körfumet. Ég geri það ekki og mun ekki koma til með að gera það. Ég er í þessu af því að ég hef gaman að þessu og svo þekki ég ekki neitt annað.” – Viðtalið má sjá í heild sinni á Vísi.is