Það fer ekki vel af stað fótboltasumarið hjá strákunum okkar, en í gær töpuðu þeir sínum þriðja leik, og eru því aðeins með einn sigur í fyrstu fjórum leikjum deildarinnar. Einhver sagði að fall væri fararheill, og annar að sígandi lukka væri best, svo við vonum að sjálfsögðu að hér sé aðeins um smá hikst í Grindavíkurvélinni að ræða og að hún verði farin að mala strax á föstudaginn á móti Þrótti.
Andstæðingarnir í gær voru KV og leikið var á gervigrasinu í Laugardal. Lokatölur urðu 3-2 fyrir heimamenn en þeir Scott Ramsay og Juraj Grizelj skoruðu mörk okkar manna. Það er gaman að sjá að hinn síungi Scott Ramsay virðist vera að jafna sig af meiðslum sínum en hann lék allan leikinn í gær. Kunnugir segja að hinn 39 ára Skoti sé í sínu besta formi hingað til, en þess má til gamans geta að hann og Ray Allen, leikmaður Miami Heat í NBA deildinni, eru jafnaldrar.
Á dögunum framkvæmdi Allen ÞETTA, svo flest er (næstum) fertugum fært!