Grindavík byrjaði einvígið gegn Þór Þorlákshöfn vel í 8 liða úrslitum. Grindavík vann Þór með 10 stiga mun, 92-82 og leiðir einvígið 1-0. Næsti leikur er í Þorlákshöfn á sunnudaginn. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í undanúrslit.
Leikurinn var í járnum framan af. Þórsarar höfðu 3ja stiga forskot eftir fyrsta leikhluta en Grindavík hafði eins stigs forskot í hálfleik, 44-43. Áfram var hart barist, Grindavík hafði þriggja stiga forskot eftir þriðja leikhluta. En í fjórða leikhluta skildu leiðir. Hið reynslumikla Grindavíkurlið setti í næsta gír og hreinlega rúllaði yfir gestina og vann að lokum með 10 stiga mun.
Stig Grindavíkur: Earnest Lewis Clinch Jr. 21, Þorleifur Ólafsson 21, Ólafur Ólafsson 16, Ómar Örn Sævarsson 10, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9, Jóhann Árni Ólafsson 9, Jón Axel Guðmundsson 6.
Sverrir Þór Sverrisson: Góður sigur en þurfum að laga nokkra hluti
Þjálfari Grindavíkur var sammála um að vörnin í fjórða leikhluta hafi skilað sigri í hús fyrir Grindvíkinga á móti Þór í kvöld. „Jú við getum verið sammála um að vörnin í fjórða leikhluta hafi gert gæfumuninn. Þetta var góður sigur en við vorum svolítið á hælunum í vörninni og vorum að tapa boltanum klaufalega. Við þurfum að laga fullt af hlutum fyrir næsta leik.”
Sverrir var spurður að því hvort eitthvað hafi komið honum á óvart í leik Þórs. „Í raun og veru ekki, ég bjóst náttúrulega við þeim grimmum, eins og þeir komu í þennan leik. Þeir eru góðir og eru með góða leikmenn í öllum stöðum. Líkamlega sterkir stóru kallarnir hjá þeim, þannig að það kom mér ekkert á óvart með þá. Við hefðum mátt vera grimmari strax í byrjun, þannig að við þurfum að laga nokkra hluti fyrir sunnudaginn.”
„Það verður svipað upp á teningnum væntanlega á sunnudaginn og var í kvöld. Það er erfitt að fara í Þorlákshöfn og spila. Við spiluðum hörkuleik fyrir stuttu þarna og verðum við að laga nokkra hluti og vera enn þá grimmari en við vorum í kvöld á sunnudaginn.”
Lewis Clinch Jr. virtist haltur í leiknum og sagði Sverrir: „Hann meiddist í Þorlákshöfn í næstsíðasta leiknum og hvíldi seinasta leikinn. Það var eitthvað að angra hann undir lokin. Hann nær að hvíla sig á morgun og verður vonandi í toppstandi í næsta leik.”