Kvennalið Grindavíkur samdi við framherjann Lauren Oosdyke fyrir þessa leiktíð en hún spilaði stórt hlutverk hjá University of Northern Colorado í bandaríska háskólaboltanum. Oosdyke segist hafa verið í fimm ár skólanum og notið þess að vera þar. Hún reyndar fótbrotnaði illa fyrsta árið en hún náði sér vel á strik eftir það og var einn af lykilleikmönnum liðsins. Hún þreytir frumraun sína með Grindavík í úrvalsdeildini í kvöld kl. 19:15 í Röstinni.
Lauren Oosdyke var með 13,3 stig og 5,7 fráköst að meðaltali á lokaári sínu með University of Northern Colorado. Hún hitti úr 29,5 prósent þriggja stiga skota sinna og 72,7 prósent vítanna. Oosdyke er meðal fimm efstu í sögu skólans í stigum (1548), fráköstum (763) og stolnum boltum (183).
Oosdyke lauk háskólaprófi í fjölmiðlafræði og mastersprófi í íþróttastjórnun. Hún er frá Kaliforníu og þar búa foreldrar hennar og yngri bróðir sem er 18 ára og er einnig í körfubolta. Oosdyke segist vonast til þess að fjölskyldan heimsæki hana í janúar.
Lauren Oosdyke var í viðtali við heimasíðu skólans eftir að hún skrifaði undir samninginn við Grindavík.
„Ég er mjög spennt fyrir að fara erlendis og kynnast nýrri menningu og nýju fólki. Þetta er eitthvað sem ég hef alltaf stefnt á og ég vildi ekki missa af þessu tækifæri,” sagði Lauren Oosdyke í viðtali á UNCBears.com.
En hvernig skyldi henni svo líka hér á landi eftir að hafa verið hér í nokkrar vikur?
„Ég hreinlega elska að vera hérna. Í Grindavík eru allir ótrúlega vinalegir og duglegir að tala ensku. Ég er búin að skoða mig svolítið um, hef farið í Bláa Lónið, á Snæfellsjökul og fleiri staði. Ísland er ótrúlega fallegt land,” segir Oosdyke í samtali við heimasíðuna og Leikskrá Grindavíkur.
Vinnusemin í fyrirrúmi
Í viðtalinu við UNCBears.com segir Oosdyke:
„Ég talaði við þjálfarann í síma á dögunum og hann virkaði mjög almennilegur. Hann talaði enskuna líka virkilega vel en ég hafði smá áhyggjur af því hvort ég myndi skilja allt á æfingum. Ég þarf í það minnsta ekki að kaupa orðabók,” sagði Oosdyke í léttum tón.
„Þjálfarinn sagði einnig við mig að ég á bæði að spila inn í teig og fyrir utan alveg eins og ég gerði í skóla. Ég get því verið „póst”-leikmaður en fæ einnig að spila þristinn. Ég var mjög ánægð að heyra það,” sagði Oosdyke.
Eftir nokkrar vikur á klakanum segist Oosdyke vera alsæl með móttökurnar hjá Grindavíkurliðinu. „Ég hafði áhyggjur af tungumálaörðugleikum en það eru allir svo klárir í ensku þannig að þetta er ekkert mál. Ég hef spilað nokkra leiki með Grindavík á undirbúningstímabilinu og liðið er að slípast. Mér skilst að þetta sé bara alveg nýtt lið sem Grindavík er með. Mér líst rosalega vel á það og ég er viss um að við verðum í toppbaráttunni. Ég er alla vega klár í að berjast þar, ég er að hefja atvinnumannaferil minn og það skiptir mig miklu máli að standa mig vel hérna á Íslandi,” sagði Oosdyke.
Hún var beðin um að lýsa sjálfri sér sem leikmanni:
„Ég er fyrst og fremst aggresívur leikmaður. Ég er framherji en mér finnst gaman að fara út fyrir og skjóta. Ég er svona alhliða leikmaður sem er með vinnusemina í fyrirrúmi. Það er alla vega eitthvað sem ég fær að heyra reglulega,” sagði Lauren Oosdyke að endingu.
Viðtalið birtist einnig í Leikskrá körfuknattleiksdeildarinnar sem dreift verður i öll hús í bænum og víðar.