Það er gríðarleg spenna fyrir lokaumferð 1. deildarinnar sem leikin verður á morgun. Fjölnir er á toppnum með 40 stig en Grindavík er eitt þriggja liða sem er með 39 stig. Grindavík fær KA í heimsókn á morgun. Jóhann Helgason, fyrirliði Grindavíkur, spilaði með KA í fyrra en hann býst ekki við neinum greiða frá félögum sínum að norðan.
„Ég hef enga trú á því. Þeir gera sitt besta enda verið á flottu skriði. Þetta verður jafn leikur,” segir Jóhann.
„Við verðum að treysta á aðra í þessari baráttu en fyrst af öllu fókusera á að klára KA-menn og svo bara treysta á að eitthvað af hinum liðunum misstígi sig.”
„Þetta tímabil hjá okkur hefur verið sveiflukennt hjá okkur. Við höfum komist á skrið og tekið tvívegis kafla þar sem við höfum unnið 5-6 leiki í röð. Aftur á móti hafa líka komið tímabil þar sem við höfum dottið niður. Yfir allt hefur þetta verið nokkuð gott tímabil. Við ætlum að klára þetta almennilega.”
Veisla væntanleg
„Grindavík á heima í efstu deild. Það hefur ekki verið dregið úr allri umgjörð og svoleiðis þó að við höfum farið niður í fyrstu deild. Allt hefur verið til fyrirmyndar og engu til slakað þar. Þetta er klárlega úrvalsdeildarklúbbur,” segir Jóhann.
Óskar Pétursson, markvörður Grindavíkur, hefur ekki spilað síðustu leiki eftir að hafa puttabrotnað. Hann var á bekknum sem útispilari í síðasta leik.
„Hann verður jafnvel í senternum. Hann hefur verið funheitur frammi á æfingum og það kæmi mér ekkert á óvart ef hann fengi sénsinn á morgun!”
„Þetta verður örugglega líflegur og skemmtilegur leikur. KA-menn koma léttleikandi inn í þetta, á góðu skriði og hafa ekki að neinu að keppa þannig. Við höfum verið að spila skemmtilegan fótbolta svo það er veisla væntanleg.”