Daníel Leó Grétarsson hefur vakið nokkra athygli fyrir vasklega framgöngu með knattspyrnuliði Grindvíkinga í 1. deild í sumar. Daníel sem er 17 ára gamall hefur leikið lykilhlutverk hjá liðinu en hann hefur skorað fjögur mörk í sumar og leikið 22 leiki í hinum ýmsu stöðum. Daníel vann sér inn sæti í U19 ára landsliði Íslands fyrir skömmu og því er ljóst að Grindvíkingurinn er að vekja athygli.
Daníel var búinn að vinna sér sæti í hóp Grindvíkinga aðeins 16 ára gamall en tækifærin voru skiljanlega af skornum skammti. Liðið var þá í efstu deild og samkeppnin hörð. Daníel fékk þó óvænt eldskírn í eftirminnilegum leik. Hann kom, 16 ára gamall, inn í stöðu vinstri bakvarðar eftir að Mikael Eklund meiddist í upphitun gegn Fylki. Daníel fékk óskabyrjun í efstu deild en hann skoraði mark á 16. mínútu sem kom Grindvíkingum yfir. Undir lok leiks fékk leikmaðurinn ungi svo dæmda á sig vítaspyrnu sem tryggði Fylkismönnum sigurinn. Daníel man vel eftir þessum leik og hversu stressaður hann var á vellinum. „Ég var kallaður kjúklingur en fékk annars lítið að heyra það eftir leikinn.” Daníel er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður en oftast lék hann sem miðjumaður í yngri flokkum. Í sumar hefur hann bæði leikið á miðju og í vörn en hann er ánægður svo lengi sem hann spilar.
Daníel veit hvar markið er að finna en sem dæmi má nefna að í fyrra var hann markahæstur leikmanna í 2. flokki Grindavíkur þar sem hann lék í stöðu miðjumanns.
Eftir að Grindvíkingar féllu niður um deild í fyrra hugsaði Daníel aldrei um að fara í annað lið. Hann vissi að hann ætti möguleika á að sanna sig undir stjórn Milan Stefán Jankovic. Daníel er ánægður með árangur Grindvíkinga í sumar en þó segir hann að þeir hafi gert sér erfitt fyrir í mörgum leikjum. „Við höfum kastað þessu aðeins of oft frá okkur. Við gætum líklega verið með sterkari stöðu í deildinni.” Hann segir að þeir tveir leikir sem eftir eru séu eins og úrslitaleikir, allt verði lagt í sölurnar í þeim.
Grindvíkingurinn sem verður 18 ára 2. október, fangaði athygli landsliðsþjálfara U19 ára liðs Íslands og hefur fengið tækifæri með liðinu að undanförnu. Áður hafði Daníel komist í úrtak en aldrei komist í lokahóp yngri landsliða. Daníel segist ekki vera farinn að huga of mikið að framtíðinni en hann hyggst reyna að vinna sér sæti í Evrópuhóp U19 ára liðsins.
Það er gaman að hugsa til þess að þeir liðsfélagar, Daníel og Scott Ramsay, eiga sama afmælisdag. Þó munar 20 árum á milli þeirra. Daníel segist alltaf hafa litið upp til Ramsay sem er fyrir löngu orðinn goðsögn í Grindavík.
Eins og aðra unga leikmenn dreymir Daníel um að leika erlendis. Hann segist ekki vita af áhuga annarra liða en ef vel gangi hjá landsliðinu þá sé aldrei að vita hvað gæti gerst, hann er opinn fyrir öllu. En gæti hann hugsað sér að leika fyrir Keflavík? „Ég veit það ekki. Maður á aldrei að segja aldrei,” segir Daníel en tengdafaðir hans er einmitt gamalkunnur Keflvíkingur, Freyr Sverrisson. Pabbi Daníels lék lengi með Grindvíkingum í 1. deild og þar á Daníel mikla fyrirmynd.
„Pabbi var grjótharður varnarjaxl hjá Grindavík hér á árum áður.” segir Daníel sem virðist eiga framtíðina fyrir sér í boltanum.
af www.landposturinn.is