Grindavík tapaði fyrir KR í 32ja liða úrslitum bikarkeppni KSÍ í gærkvöldi. Grindvíkingar stóðu sig mjög vel en KR-ingar eru með reynslumikið lið sem kláraði leikinn á lokasprettinum.
Grindavík hafði fengið bestu færi leiksins áður en KR komst yfir á 30. mínútu. En Jósef Kristinn Jósefsson jafnaði metin fyrir Grindavík á 63. mínútu eftir að hann fylgdi vel eftir skoti Óla Baldurs en skömmu áður hafði Stefán Þór Pálsson átt hörku skot í þverslána.
En KR-ingar komust yfir fimm mínútur síðar með góðu marki Baldurs Sigurðssonar og Jónas Guðni Sævarsson bætti svo þriðja markinu við fyrir KR með gullfallegu skoti.
Grindvíkingar stóðu vel í KR-ingum og frammistaðan gefur góð fyrirheit fyrir 1. deildina í sumar þar sem liðið trónir á toppnum. Vonandi verður bikarævintýri á næsta ári!