Grindavík tyllti sér á topp 1. deildar karla eftir glæsilegan sigur á BÍ/Bolungarvík 6-1 á Grindavíkurvelli.
Magnús Björgvinsson opnaði markaveisluna en Grindvíkingurinn í liði Vestfirðinga, Alexander Veigar Þórarinsson, jafnaði metin. Stefán Þór Pálsson kom svo Grindavík aftur yfir skömmu fyrir leikhlé með skondnu marki.
Í upphafi seinni hálfleiks var röðin komin að Scott Ramsey sem sýndi að hann er ekki dauður úr öllum æðum. Hann skoraði tvö mörk, bæði beint úr aukaspyrnum. Glæsilega gert.
Stefán Þór Pálsson skoraði svo fimmta mark Grindavík og Magnús fullkomnaði veisluna með sjötta markinu en skömmu áður hafði BÍ/Bolungarvík misst mann af velli með rautt spjald.
Grindavík lék án Jóhanns Helgasonar fyrirliða sem er meiddur. En gaman var að sjá að Alexander Magnússon er að komast í gang en hann spilaði í um hálftíma.
Staðan:
1. Grindavík 3 2 0 1 8:3 6
2. Víkingur R. 3 2 0 1 8:5 6
3. Haukar 3 2 0 1 5:4 6
4. BÍ/Bolungarv 3 2 0 1 4:7 6
5. Leiknir R. 3 1 2 0 5:2 5
6. Tindastóll 3 1 2 0 4:3 5
7. KF 3 1 1 1 6:4 4
8. Fjölnir 3 1 1 1 5:7 4
9. KA 3 1 1 1 3:5 4
10. Selfoss 3 1 0 2 4:5 3
11. Völsungur 3 0 1 2 1:5 1
12. Þróttur 3 0 0 3 3:6 0