Íslandsmeistarar Grindavíkur voru teknir í bakaríið af KR-ingum í öðrum undanúrslitaleik liðanna í úrslitakeppni körfuboltans og er staðan í einvígi jöfn 1-1. KR vann með 18 stiga mun og var mun sterkari aðilinn allan tímann.
Lykilmenn Grindvíkinga voru langt frá sínu besta. Það voru aðallega varamennirnir Ryan Pettinella og Davíð Ingi Bustion sem létu eitthvað að sér kveða þegar þeir fengu tækifæri en annars var leikur liðsins mjög slakur. KR hafði 11 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og 12 stiga forskot í hálfleik. KR-ingar gerðu svo út um leikinn í þriðja hluta og lönduðu að lokum 18 stiga sigri, 90-72.
Næsti leikur liðanna fer fram í Grindavík á sunnudaginn kl. 19:15.