„Ég er virkilega ánægður með úrslitin. KR er með hörkulið en við teljum okkur vera það líka og því mátti búast við spennandi leik,” sagði Jóhann Árni Ólafsson, leikmaður Grindavíkur við Vísi. Hann átti skínandi góðan leik gegn KR og skoraði 28 stig.
„Ég er nokkuð sáttur með spilamennskuna hjá mér en miklu sáttari með sigurinn, það er það eina sem skiptir máli. Það man enginn hvernig þessi leikur fór í maí þegar menn lyfta Íslandsmeistaratitlinum. Leiðin að titlinum skiptir ekki öllu ef menn verða Íslandsmeistarar.”
Grindvíkingar voru mun betri í fyrri hálfleik en KR mætti af krafti inn í seinni hálfleik og þjarmaði að heimamönnum. „KR spilaði mun betur en við í þriðja leikhluta og forystan sem við náðum í fyrri hálfleik hvarf ansi hratt. Þannig er körfuboltinn oft, lið taka rispur. Við höfðum styrk í að klára þennan leik,” segir Jóhann.
„Það er virkilega gaman að leika fyrir fullu húsi. Það gefur þessari úrslitakeppni gildi. Maður á bágt með svefn þessa dagana á milli leikja.”