Enski miðjumaðurinn Jordan Edridge hefur samið á nýjan leik við Grindavík en hann mun leika með liðinu í fyrstu deildinni í sumar. Þetta staðfesti Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar í samtali við Fótbolta.net í gær.
Edridge kom fyrst til Grindvíkinga síðastliðið vor. Eftir að hafa leikið einungis þrjá leiki í Pepsi-deildinni voru bæði Edridge og Gavin Morrison látnir fara frá félaginu. Edridge var áfram á Íslandi í sumar eftir að Grindvíkingar sögðu upp samningi sínum við hann en hann á unnustu hér á landi. Þessi tvítugi leikmaður hefur nú samið aftur við Grindvíkinga en áður en hann kom til Íslands var hann í unglingaliði Chesterfield.
Grindvíkingar hafa ekki misst marga leikmenn frá síðasta tímabili en óvissa er ennþá með Tomi Ameobi sem er samningslaus. Fylkismenn hafa sýnt Ameobi áhuga sem og fleiri félög en Grindvíkingar vonast til að halda honum.
Grindvíkingar hafa einnig endurheimt miðjumanninn Jóhann Helgason en hann var í láni hjá KA í fyrra. Þá verður Jósef Kristinn Jósefsson með liðinu í sumar en hann náði einungis að leika þrjá leiki á síðasta tímabili vegna meiðsla.