Grindavík pakkaði Skallagrími saman í Lengjubikar karla í körfubolta í gærkvöldi með 104 stigum gegn 79. Ekkert varð af því að Páll Axel Vilbergsson spilaði gegn sínum gömlu félögum í Grindavík því hann er meiddur og sat á bekknum.
Skallagrímur hafði 8 stiga forskot í hálfleik. En Grindavík fékk augljóslega mikla yfirhalningu frá þjálfara sínum í hálfleiksræðunni því Íslandsameistararnir fóru á kostum í þeim síðari. Grindavík er með fullt hús stiga eftir 2 umferðir í Lengjubikarnum.
Grindavík-Skallagrímur 104-79 (21-27, 23-25, 35-14, 25-13)
Grindavík: Samuel Zeglinski 22/5 fráköst/5 stoðsendingar, Aaron Broussard 21/9 fráköst/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 18/6 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 17/5 stoðsendingar, Þorleifur Ólafsson 13, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7, Davíð Ingi Bustion 6.
Páll Axel eftir leikinn við karfa.is:
,,Þetta var flott framlag og var flott framan af. Hefðum átt að spila betur, hægt að segja að það vantaði stóra leikmenn þar sem þeir væru með fullt af flottum bakvörðum,” sagði Páll eftir leik. Hann taldi alltaf leiðinlegt að horfa á sem leikmaður og honum hefði þótt gaman að spila þennan leik. Þegar Páll Axel var spurður út í hvort hann teldi þá mætast í úrslitakeppninni talaði hann um að mæta bara í næsta leik og vinna hann. Vildi ekki vera hugsa of mikið um framtíðina.