Íslandsmeistarar Grindavíkur skelltu bikarmeisturum Keflavíkur í 1. umferð úrvalsdeildar karla með 15 stiga mun, 95 stigum gegn 80. Íslandsmeistararnir voru mun betri og grimmari og sigurinn var aldrei í hættu.
Keflvíkingum var spáð sæti um miðja deild í spá fyrir mótið og því má segja að tap á heimavelli gegn Íslandsmeisturum Grindavíkur hafi kannski ekki komið á óvart. Grindavík náði að setja tóninn í fyrsta leikhluta. Keflvíkingar náðu samt að leika betur í öðrum leikhluta en Grindvíkingar settu í hágír í seinni hálfleik og skildu heimamenn eftir í rykmekki. Lokastaðan var 15 stiga sigur sem var sanngjarn og ansi öruggur. Aaron Broussard kom sterkur inn í lið Grindavíkur en hann skoraði 23 stig og tók 7 fráköst. Hjá Keflavík var Michael Graion stigashæstur með 19 stig og 10 fráköst.
Grindavík: Aaron Broussard 23/7 fráköst, Samuel Zeglinski 22/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 18/8 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 9/8 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 8/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7, Jón Axel Guðmundsson 4, Þorleifur Ólafsson 4.
Keflavík 80-95 Grindavík (16-20, 24-22, 20-28, 20-25)
Mynd: Vf.is – Hinn efnilegi Jón Axel Guðmundsson er að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki.