Nýliðar Grindavíkur fengu skell í úrvalsdeild kvenna gegn grönnum sínum í Keflavík þegar liðin mættust á laugardaginn í úrvalsdeild kvenna. Keflavík skellti Grindavík með 40 stiga mun, 87 stigum gegn 47.
Grindavík hafði forystuna eftir fyrsta leikhluta 26-23 en eftir það hrundi leikur liðsins, sérstaklega í seinni hálfleik. Grindavík skoraði aðeins 7 stig í þriðja leikhluta og fjögur stig í þeim fjórða. Grindavíkurstelpur hafa þar með tapað báðum leikjum sínum.
Nýr bandarískur leikmaður Dellena Criner lék með Grindavík en var hún stigahæst með 19 stig. Helga Rut Hallgrímsdóttir skoraði 10 stig og Petrúnella Skúladóttir 8. Grindavík hefur enn ekki náð að tefla fram sínu sterkasta liði vegna meiðsla.