Þann 6. janúar veitti Bláa Lónið íþróttafélögum á Suðurnesjum styrki til eflingar á barna- og unglingastarfi félaganna. Alls nemur styrkupphæðin um 14 milljónum króna á samningstímabilinu sem telur 2 ár.
Ungmennafélag Grindavíkur og Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hlutu styrki að þessu sinni fyrir árin 2022 og 2023 sem mun efla barna- og unglingastarf hjá félaginu.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, segir að það sé Bláa Lóninu mikilvægt að hlúa að nærsamfélaginu og þá ekki síst með stuðningi við íþrótta- og æskulýðsstarf, og svo hafi verið viðhaft um langt árabil.
„Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu mikilvægt það er fyrir Suðurnesin að hafa öflugt íþróttastarf innan bæjarfélaganna. Það er okkur Bláa Lóninu sönn ánægja að styðja við þetta góða starf og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með íþróttafélögunum á Suðurnesjum.”
Grímur bætir við að þegar horft er til þess hversu ósérhlífið starf íþróttafélaganna sé í þágu unga fólksins, ekki síst hið mikilvæga starf sjálfboðaliða, þá sé Bláa Lóninu sérstaklega ljúft og skylt að leggja hönd á plóg.
„Við hjá UMFG viljum þakka kærlega mikilvægan stuðning og hlýhug frá Bláa Lóninu. Það skiptir miklu máli að hafa öfluga bakhjarla sem hjálpa okkar íþróttafélagi að halda úti öflugu og metnaðarfullu barna- og unglingastarfi,“ segir Klara Bjarnadóttir, formaður Ungmennafélags Grindavíkur.