Ungmennafélag Grindavíkur fagnar í dag 85 ára afmæli en það var stofnað árið 1935. Í tilefni afmælisins var nýtt íþróttahús formlega vígt í gær og bauðst íbúum að koma og fá sér hressingu og skoða húsið. Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs stýrði dagskrá vígslunnar en Fannar Jónasson bæjarstjóri flutti ávarp auk hans flutti Bjarni Már Svavarsson, formaður UMFG ávarp í tilefni dagsins. Hann sagði nýtt íþróttahús bæta alla aðstöðu til muna. Viðbyggingin er rúmlega 2000 fermetrar að stærð. Þar er stór íþróttasalur, annar minni, aðstaða fyrir júdó, fjórir búningsklefar, áhaldageymsla, afgreiðslurými og fleira.
Bjarni segir nýtt körfuboltahús í byggingunni vafalítið með þeim flottari á landinu.
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, kom í afmælið og flutti þar stutt ávarp í tilefni dagsins eins og aðrir fulltrúar Grindavíkurbæjar. Jarðhræringar við Þorbjörn sem truflað hafa bæjarbúa voru afmælisgestum ofarlega í huga og sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í erindi sínu gleði og sorg vera systur. Auður Inga afhenti Bjarna jafnframt áritaðan skjöld frá UMFÍ í tilefni dagsins.
Öllum bæjarbúum var boðið að skoða nýja húsið og voru um 200 gestir í veislunni, að sögn Bjarna.
Hann segir nýja húsið breyta miklu í Grindavík. „Æfingar hér hafa verið langt fram á kvöld enda íþróttahúsið fullt. En nú verður hægt að ljúka æfingum miklu fyrr og meira að segja lausir tímar, sem aðrir geta nýtt sér,“ segir hann.
Við vígsluna var auk þess undirritaður samningur við Janus Guðlausson, doktor í íþrótta- og heilsufræði en hann mun sjá um fjölþætta heilsueflingu eldri íbúa í Grindavík.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við vígsluna.
Eggert Sólberg Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur
Bjarni Már Svavarsson, formaður UMFG fékk áritaðan skjöld frá Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ í tilefni dagsins.