Páll Árni Pétursson úr Pílufélagi Grindavíkur sigraði í úrslitaleik Reykjavíkurleikanna um liðna helgi gegn Friðrik Diego úr Pílukastfélagi Reykjavíkur 7-4.
Keppni í pílukasti á Reykjavíkurleikunum var haldin í félagsaðstöðu Pílukastfélags Reykjavíkur, að Tangarhöfða 2, um síðustu helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem pílukast er keppnisgrein á leikunum. Að sögn skipuleggjenda hjá Pílukastfélagi Reykjavíkur gekk mótið mjög vel fyrir sig og er líklega eitt glæsilegasta pílumót sem haldið hefur verið hér á landi.
Sigurgeir Guðmundsson úr Pílufélagi Akraness og Kristján Þorsteinsson úr Pílukastfélagi Reykjavíkur voru í 3.-4. sæti.
Ingibjörg Magnúsdóttir úr Pílukastfélagi Reykjavíkur sigraði í kvennaflokki. Í úrslitum mætti hún Maríu Steinunni Jóhannesdóttur sem einnig er í Pílukastfélagi Reykjavíkur og sigraði 7-2. Í úrslitaleiknum gerði hún sér lítið fyrir og sprengdi 169 í fyrsta legg sem er mikið afrek í pílukasti. Ingibjörg sá einnig um allt skipulag mótsins ásamt stjórn Pílukastsfélags Reykjavíkur og lýsti þeim leikjum sem hún ekki spilaði í beinni á Live Darts Iceland sem verður að teljast ansi magnað afrek líka. Í 3.-4. sæti í kvennaflokki voru Arna Rut Gunnlaugsdóttir og Petrea Kr. Friðriksdóttir, báðar úr Pílukastfélagi Reykjavíkur.
Á myndinni má sjá sigurvegara í karla- og kvennaflokki, þau Pál Árna og Ingibjörgu en myndin er frá Pílukastfélagi Reykjavíkur.